1 (3999 eftir)

Valgerður segir að það séu 11 ár til stefnu. Það er tíminn sem við höfum til að ná U beygjunni sem er nauðsynleg er ef við viljum veita henni og hennar kynslóð þau lífsgæði sem fólk af minni kynslóð hefur notið.

11 ár. Það eru um það bil 4000 dagar, 96.000 klukkustundir.

Við feðginin vorum tvö saman á ferðalagi um nyrsta hluta Jótlands. Við höfðum verið að ræða allt milli himins og jarðar, þar á meðal um mataræðið hennar (vegan) og vinnuna mína (bókmenntakennsla og -rannsóknir). Við höfðum rætt bæði þessi efni áður, hvorugt okkar sagði eitthvað nýtt en þegar hún skellti fram þessari tölu sá ég þetta skyndilega kýrskýrt. Það var eins og rynni upp fyrir mér ljós. Loksins.

Eftir 11 ár verð ég 65 (ef ég lifi), hún verður 29 og Múli (afadrengurinn minn) 12 ára.  Lífsskilyrðin á jörðinni verða klárlega önnur og verri en þau eru í dag. Það er þegar orðið of seint að koma í veg fyrir stórtækar loftlagsbreytingar (Snæfellsjökull er skýr mælikvarði sem blasir við augum mér nærri daglega). Spurningin er hvort ég geti horft framan í þau og sagt: Ég hef lagt eitthvað af mörkum, tekið vis(s)t spor í rétta átt.

Ég átti bókað flug daginn eftir. Ekki ýkja gæfuleg byrjun.

Þessa fjóra tíma sem það tók mig að keyra (á sparneitnum bensínbíl) til Kaupamannahafnar braut ég heilann um hvað ég gæti gert, hvers megnugur miðaldra fræðimaður á sviði hugvísinda væri þegar kæmi að þessu knýjandi úrlausnarefni mannkynsins. Ég ók lengst af eftir hraðbrautinni, á 120 kílómetra hraða. Á leiðinni taldi ég þrjá refi, eina akurhænu og eitt dádýr, sem lágu í blóði sínu í vegkantinum.

Hugmyndirnar hrönnuðust upp. Það tók mig ekki langan tíma að rifja upp fyrir sjálfum mér að fjölmargir kostir er í stöðunni. Í fyrsta lagi gæti ég farið að dæmi Valgerðar og dregið úr kjötneyslu. Hún sagði mér að áhrifaríkasta skrefið sem hægt væri að taka í þessum efnum á heimsvísu sé að draga úr neyslu nautakjöts. Ég veit ekki hvaðan hún hefur sínar upplýsingar en þær koma alveg heim og saman við orð Jóhanns Þórsson líffræðings hjá Landgræðslu Íslands í sjónvarpinu nýlega. Við sama tækifæri var upplýst að Ólafur Ragnar Grímsson forðast núorðið hamborgara og fleiri kjötafurðir. Hann vísar í sínu máli til áeggjunnar formanns loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Líklega kemur að því að ræktun og neysla nautakjöts verði algjörlega bönnuð, hugsaði ég með mér, þegar ég skilaði bílaleigubílnum og gekk inn í flughöfnina. En í bili er víglínan dreginn í kringum neytandann. Það er óhollt (fyrir lífsgæði okkar allra á jörðinni) að borða nautakjöt, með líkum hætti og það er óhollt (fyrir reykingamanninn og þá sem eru í kringum hann) að reykja. Ég ákvað því tvennt:

a) að hætta að borða nautakjöt næstu 4000 dagana (ég gekk framhjá hamborgarastaðnum í flughöfninni þar sem ég et vanalega og settist þess í stað niður á smurbrauðsstofunni í næsta gangi og pantaði þar rúgbrauð með grænmeti)

b) að leggja til að ríkisstjórn Íslands, undir forystu Vinstri Grænna, setti á fót nautakjötsátsvarnarráð, sem starfaði í líkum anda og tóbaksvarnarráð næstu 11 árin. Þessu er hér með komið á framfæri.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s