2 (3998 eftir)

„Ég er með vatn,“ sagði Valgerður þegar ég stakk upp á því að við kæmum við á bensínstöð og keyptum eitthvað að drekka til að hafa með okkur þegar við gengjum út á Skagen, nyrsta odda Jótlands. Þetta var á laugardaginn.

Hún hafði smurt girnilegar samlokur fyrir okkur áður en við lögðum af stað og vatnið hafði hún haft meðferðis í lítraflösku úr áli sem hefur þann eiginleika að halda hitastigi vökva óbreyttu svo klukkustundum skiptir. Ég hafði vaknað fyrir allar aldir og lokið við þýðingu á sögu eftir líbanskan rithöfund. Hún fjallar um mann sem villist úti í eyðimörkinni, bíllinn hans verður bensínlaus, hann gengur af stað í átt til byggða en klárar fljótt að drekka allt það vatn sem hann hefur með sér og verður síðan svo heitt í sólinni að hann fer úr öllum fötunum. Þegar maðurinn finnur loks brunn á hann um tvennt að velja: Að virða vatnsyfirborðið fyrir sér, nakinn af brunnbrúninni og deyja úr þorsta eða fleygja sér ofan í brunninn og drukkna þar. Hann velur síðari kostinn.

„Ég er með vatn,“ sagði hún og ég ók beinustu leið út á Skagatá. Við settumst þar í skjól af gömlu loftvarnarbyrgi, átum nestið okkar og skiptumst á að dreypa á vatninu. Svo fórum við aftur í bílinn og lögðum af stað til baka.

Þegar ég kom heim til Íslands á sunnudagkvöldið kveikti ég óvænt á því hvað Valgerður átti við þegar hún sagði: „Ég er með vatn.“ Í orðunum fólst auðvitað að hún legði ekki í vana sinn að kaupa vatn á plastflöskum, að það væri hins vegar eitthvað sem ég legði í vana minn. Það er út af fyrir sig æði merkilegt. Þegar íslensk fyrirtæki tóku upp á því að markaðssetja vatn í flöskum í verslum hérlendis taldi ég uppátækið álíka fáránlegt og að reyna að selja hirðingjunum í Sahara-eyðimörkinni sand. Ég var ungur og heimskur, þegar þetta var og það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan.

Á leiðinni heim frá Keflavík fór ég ósjálfrátt að rifja upp heimsókn mína í íslenska vatnsverksmiðju fyrir fáeinum vikum. Þar er tappað með alsjálvirkum hætti á 30.000 flöskur á hverjum klukkutíma, lítill hluti framleiðslunnar er seldur innanlands, mikill meirihluti fer á Bandaríkjamarkað. Mér hafði fundist merkilegt að virða fyrir mér framleiðslulínuna, sjá hvernig plasthylki (sem minna á lafandi smokka með skrúfgangi) eru a) blásin út í flöskustærð, b) flöskurnar síðan látnar kólna á löngu færibandinu, c) hreinsaðar með vatni og d) blásið úr þeim með lofti áður en e) neysluvatninu er tappað á. Því næst sér vélbúnaðurinn um að f) skrúfa á tappa, g) smeygja plasthólki með framleiðsluupplýsingum yfir flöskuna h) hita hólkinn þannig að hann límist fastur, i) raða flöskunum í tylftir eða hálfar tylftir j) og plasta þær síðan saman. Fyrirtækið stærir sig af því að framleiða einstaklega heilnæmt vatn til útflutnings en fyrst og fremst snýst framleiðslan um að flytja inn til landsins plast og flytja það svo aftur út um allar heimsins koppagrundir. Um það bil 30.000 flöskur eru tæmdar á hverri klukkustund einhvers staðar í heiminum, sumar þeirra fara vonandi í endurvinnslu en það er hætt við að þúsundir endi einhvers staðar úti í náttúrunni.

Og í dag hef ég verið að reikna. Ef ég held uppteknum hætti á ég eftir að handleika um 4000 plastflöskur með blávatni á næstu ellefu árum. Ég held að ég kaupi að jafnaði 30 flöskur af kolsýrðu vatni mánaðarlega, eitthvað fleiri þegar ég er á ferðalögum, hugsanlega færri þegar ég lifi mínu hversdagslega lífi. Í fæstum tilvikum er um að ræða vatn sem ég þarf nauðsynlega á að halda, í flestum tilvikum hef ég aðgang að hreinu drykkjarvatni í vaski í eldhúsum, baðherbergjum og almenningssalernum. Eftir að hafa skoðað málið hef ég ákveðið tvennt:

a) að krækja mér í vatnsflösku úr áli og fækka markvisst þeim 4000 plastflöskum sem ég drykki annars úr næstu 11 árin; ég set mér það markmið að þær fari ekki yfir 400.

b) að reyna að opna augu mín og annarra fyrir því að plastflöskur eru í rauninni olía á föstu formi; þegar við handleikum þær erum við hluti af risavöxnu dreifingarkerfi alþjóðlega olíuiðnaðarins, hrekklausir þátttakendur í stærsta og afdrifaríkasta mengunarslysi sögunnar (mengun vegna plasts hefur tífaldast frá 1980). Þessu er hér með komið á framfæri.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s