Marteinn kíkti í heimsókn í gærkvöldi. Hann bauð mig velkominn heim eftir Danmerkurdvölina og spurði hvernig ég hefði haft það.
„Fínt sagði ég. Það hefur bara verið svolítið mikið að gera.“
„Er eitthvað í gangi?“ spurði hann.
„Ja, ég er svolítið upptekinn við að bjarga heiminum,“ sagði ég vandræðalega og vísaði í dagbókarfærslurnar mínar tvær sem hann sagðist hafa séð en ekki lesið. Hann var áhyggjufullur að sjá og hugsaði (líklega) : Er ekki allt í lagi með þig, pabbi minn?
Í sjálfu sér var þetta auðvitað allt frekar hlægilegt eða sorglegt (hvorugt orðið nær fyllilega merkingu enska orðsins pathetic). Í stóra samhenginu munar ekki mikið um þessar 120 nautasteikur, 240 hamborgara og 3600 plastflöskur sem ég hef ákveðið að láta hjá líða að hesthúsa/tæma úr á næstu 11 árum. Ég leysi ekki loftlagsvandann og plastmengunina með þessu áframhaldi. Og ég mun ekki standa undir því að strengja nýtt vistvænt umhverfisheit á hverjum morgni og standa raunverulega við það. Kannski er ég einfaldlega sekur um álíka hugsunarvillu og maðurinn sem sá fyrir sér að verða moldríkur af því að brjóta umferðarreglur í skjóli myrkurs (fór yfir á rauðu án þess að nokkur sæi: 30.000 kr.; ók á 150 yfir Hellisheiðina án þess að löggan tæki mig: 130.000, etc., gott tímakaup á næturvaktinni).
Ég neyddist til að umorða hugsun mína aðeins. „Ja, kannski ekki að bjarga heiminum en ég er að reyna að vera ekki alveg svona aktífur í að leggja hann í rúst.“ Marteinn kinkaði núna kolli, brosti skilningsríkur, svo fórum við að spjalla um íbúðarkaup og fasteignamarkaðinn.
Þegar hann var farinn horfði ég á sjónvarpsfréttir á tímaflakki og lagðist svo upp í rúm. Ég rifjaði í svefnrofunum upp pistilinn sem birtist í Politiken fyrir nokkrum dögum þar sem var fullyrt, með allgóðum rökum, að það væru einmitt karlmenn á mínum aldri (55 ára og eldri, ég er 54 ára) sem væru mesta umhverfisógn heimsins. Kannski þyrfti ég að beina kröfum mínum að þessum hópi, hvetja þá með góðu fordæmi, húmor og hugmyndaflugi að leggja börnum sínum og barnabörnum lið við að bæta lífslíkur þeirra og jarðarinnar? Getum við kannski, nokkrar misvítrar karluglur á mínu reki, sameinast um að stíga aðeins léttar til jarðar? Ég ákvað tvennt:
a) að senda fáeinum nánum vinum mínum link á þessa dagbók og leita viðbragða. Margar hendur vinna létt verk.
b) að hvetja opinbera aðila (sem munu á næstu árum þurfa að taka djarfar og óvinsældar ákvarðanir í umhverfismálum og reka fyrir þeim áróður) að huga sérstaklega að kar(l)læga aldurshópnum 50 ára og eldri. Kannski má bræða hjarta hans með kjörorðinu: Búum börnunum áhyggjulaust ævikvöld. Þessu er hérmeð komið á framfæri.