4 (3996 eftir)

„Jæja, gamla grasæta, 3 af 4000 að baki, bara 3997 eftir “ skrifaði einn þeirra vina minna á miðum aldri sem ég bað um að lesa dagbókarfærslu gærdagsins. Það var hressilegur tónn í bréfinu, ég sá hann fyrir mér í anda sitja glottandi við skrifborðið sitt í vinnunni, með kaffibolla og hálfreyktan vindil við hliðina á lyklaborðinu, kannski eilítið hissa á að ég væri farinn að tjá mig þetta opinberlega um umhverfismál, fremur en til dæmis bókmenntir eða fótbolta.

Sjálfur sagðist hann nú leggja í vana sinn að „stíga varlega til jarðar“, eins og ég hafði mælt með í mínum pistli. „En ég var satt að segja frekar fúll yfir greininni hans Morgentaler i Politiken um sekt hinna 55 ára og eldri,“ bætti hann við. „Mér fannst orðunum beint til mín, sem einn af þessum karluglum sem hafa náð 55 ára aldri. Ég hef aldrei verið sérstaklega hrifinn þegar fólk er sett í hóp (og sérstaklega ekki þegar ég er í hópnum) og eitt látið yfir alla ganga. En ég skil svo sem vel hvert Morgentaler er að fara, flestir þeir sem sitja á valdastóli eru karlar yfir 55 ára. Hann vill orða hlutina smart svo fólk taki eftir, en hann meinar ekki að karlar eldri en 55 ára séu helstu sökudólgarnir (flestir í þessu flokki gera ekkert sérstaklega mikið annað Co2-rangt en aðrir vestrænir borgarar) heldur meinar hann að við skulum beina sjónum okkar til þeirra sem stjórna.“

Ég svaraði um hæl og byrjaði á að leiðrétta að ég væri orðinn grasæta. Það eina sem ég hefði ákveðið væri að forðast nautakjöt. Og ég viðurkenndi að hafa fengið mér eina pylsu á heimleið af bar í gærkvöldi, á þeirri forsendu að þær væru kindakjöt. Og að enn væru nokkrir dagar þangað til ég tæki afstöðu til þess (get ég hugsað mér að bragða ekkert hangikjöt um jólin?).

„En varðandi Morgentaler þá var þetta líka punkturinn hjá Valgerði, að menn á mínu reki (og þínu) hafi meiri slagkraft til að knýja fram breytingar og standa gegn þeim en flestir aðrir (í því felst umhverfisógnin okkar, ekki að við mengum mikið meira per haus). Þess vegna er svo mikilvægt að við leggjumst á árarnar með dætrum okkar.“

En vinur minn var ekki sannfærður; lausnin á vanda okkar,“ sagði hann, „liggur hjá vísindamönnum og tæknifólki sem getur beitt þekkingu sinni til að að minnka til dæmis  Co2 mengun.“

Ég brást við þessum orðum með því að senda í næsta svarbréfi hlekk á nýlega blaðagrein eftir þrjá íslenska vísindamenn sem unnið hafa að því að dæla koldíoxíði frá Hellisheiðarvirkjun niður í jarðlögin undir heiðinni. Aðferðin hefur sannað sig en samt hafa menn ekki viljað ráðast í að binda nema þriðjung þeirrar mengunar sem virkjunin skapar.

Mér sýndist greinin leiða vel í ljós að það er ekki nóg að finna tæknilegar lausnir á vandamálum sem tengjast umhverfismálum; höfuðáskorunin er að fá þá sem hafa völd og hagsmuni („karluglur á okkar aldri“) til að hagnýta sér þessar lausnir. Í greininni var þetta reyndar orðað á annan hátt: „Það sem helst virðist standa í vegi fyrir því að þessi tækni sé nýtt á mun stærri skala er kostnaður – eins og staðan er í dag kostar það mun minna að losa koldíoxíð út í andrúmsloftið en að fanga það og binda.“

Þessi bréfaskipti okkar voru orðin óvenjulega pólimísk og við ákváðum báðir, með þegjandi samkomulagi, að láta þetta gott heita. Ég gerði mér að sjálfsögðu grein fyrir að þótt mér tækist að fá vin minn til að fara að tjá sig um umhverfismál eða sjá ástand og framtíðarvonir jarðkringlunnar með augum dætra okkar þá myndi það ekki breyta miklu í stóra samhenginu. Hann var því miður hvorki borgarstjóri í Reykjavík eða forstjóri Orkuveitunnar, þeir tveir menn sem hafa hugsanlega mest um það að segja hvort Hellisheiðavirkjun dæli áfram 66% af mögulegum útblæstri sínum út í andrúmsloftið eða 33% (eða jafnvel engu). Ég ákvað tvennt:

a) að beina næst athygli minni að mönnum sem ég kannaðist þokkalega vel við en hefðu líka völd til að gera einhverjar breytingar sem um munaði.

b) reyna að venja mig og aðra af þeirri hugsunarvillu að lausnin á loftlagsvandanum liggi fyrst og fremst hjá vísindamönnum. Því er hérmeð komið á framfæri.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s