5 (3995 eftir)

Við Múli Björgvin fórum einn hring um hverfið laust fyrir hádegi. Sameiginlegt verkefni okkar var að svæfa hann en við vorum báðir á því að það lægi ekkert lífið á; sólin skein og þó að lofthitinn væri ekki hár þá vermdi sólskinið.

Það kom skemmtilega á óvart að sjá að borgarfulltrúinn sem býr í þarnæstu götu hefði tekið sér frí frá pólitísku þvargi og væri að klippa hekkið sem skilur að garðinn hans og gangstéttina. Við heilsuðumst, enda málkunnugir. Ég sá mér auðvitað leik á borði (í samræmi við ákvörðunina sem ég kynnti í lok pistils gærdagsins) og fór að ræða um umhverfismál.

Hér er maður, hugsaði ég með sjálfum mér, sem gæti örugglega haft einhver áhrif á umhverfisstefnu Orkuveitunnar, kannski lagst á árarnar í því þarfa verkefni að draga enn frekar úr koldíoxíd-útblæstri Hellisheiðarvirkjunnar. Það kom fljótt upp úr dúrnum að dóttir hans, rétt og eins og mín dóttir, hefði hætt kjötáti fyrir allmörgum árum, í og með vegna ótta um framtíð jarðkringlunnar okkar. Það kom líka á daginn að fulltrúar hinna pólitísku afla í borgarstjórn ættu ekki lengur fulltrúa í stjórn Orkuveitunnar heldur væri reynt að skipa hana fagfólki. Síðast en ekki síst kom í ljós að viðmælandi minn, sem þó er manna best að sér um umhverfisstefnu Reykjavíkur og hefur mikinn metnað á því sviði (hann ræddi m.a. um fyrirsjáanlega fækkun bensínstöðva í borginni), vissi ekki nákvæmlega hvernig gengi að binda kolefni Hellisheiðavirkjunnar í jörðu. Ég gat frætt hann um það sem ég vissi um málið.

Ég ætla ekki að rekja samræður okkar í smáatriðum en í huga mér kviknaði þó sú hugmynd að tengja saman tvö óskyld en þó hliðstæð verkefni; þ.e að fjármagna frekari hreinsunarbúnað á margumrædda virkjun og draga eitthvað úr vinnutengdum flugferðum borgarstarfsmanna. Væri ekki þjóðráð, sagði ég í lok samtalsins, í sönnum Pollýönnu-anda, að gefa opinberum starfsmönnum kost á að afþakka eina og eina flugferð og leggja þess í stað kostnaðinn af flugmiðanum í söfnunarsjóð vegna hreinsunarbúnaðar virkjunarinnar á Hellisheiði?

Þú segir nokkuð, sagði borgarfulltrúinn með grænu fingurna. Ég gat ekki ráðið af svip hans hvað hann var að hugsa.

Múli var byrjaður að sífra, svefntíminn hans var greinlega runninn upp en sólin skein í augu hans. Ég ákvað því að gera tvennt (fyrir utan að breiða úlpuna mína yfir vagninn):

a) að koma þessari (líklega óraunsæju) hugmynd um Hellisheiðavirkjun á framfæri, hér og nú.

b) taka mínar eigin flugferðaáætlun til alvarlegrar endurskoðunar. Mér var smám saman að verða ljóst að þau kolefnisspor sem ég skildi eftir mig sofandi í farþegasætum Icelandair eða annarra flugfélaga væru margföld á við þann umhverfisskaða sem fælist í kjötneyslu minni og plastnotkun. Um leið fann ég að nú væri hugsanlega komið að raunverulegum persónulegum fórum fyrir málstað umhverfisins.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s