9 (3991 eftir)

Bíltúrinn okkar Valgerðar um nyrsta hluta Jótlands fyrir liðlega viku var í alla staði dásamlegur en þurr jarðvegurinn og visin tré (sem hér og þar var verið að höggva niður) minntu okkur á hvað óvenjulegir þurrkar síðasta sumars gengu nærri þessu einstaka landbúnaðarsvæði. Það hefur líka haft sitt að segja að vorið 2019 hefur verið óvenjuþurrt og raunar hafa menn áhyggjur af því að sagan frá liðnu sumir endurtaki sig í Danmörku, en hár hiti og litlar rigningar eru taldar hafa kostað danskan landbúnað um fjórar billjónir danskra króna.

Kannski varð þessi umgjörð samtals okkar til þess að ég var venju fremur næmur þegar átján ára dóttir mín fór að ræða um hugtakið umhverfisþunglyndi (án þess að fullyrða neitt um hvort hún þjáðist af því) og útskýra fyrir mér í xta skipti hvers vegna hún hefði snemma á unglingsárum ákveðið að gerast grænmetisæta og síðan vegan. Ég hef yfirleitt afgreitt þessa lífsstílsbreytingu, sem Katrín systir hennar hafði raunar einnig gert á sínu mataræði nokkrum árum fyrr, sem einhverja dillu og gert jafnvel grín að henni. Sjálfvirkasta viðbragðið, sem ég þykist viss um að margir aðrir foreldrar í sömu stöðu kannist við, er að hella sér út í rökræður um hvort valdi dýpri kolefnissporum að borða íslenskt lambakjöt, beint af býli, eða innflutt verksmiðjuframleitt veganfæði.

Í þessum bíltúr okkar og þó kannski enn frekar í bíltúrnum til Kaupmannahafnar daginn eftir (ég hafði þá slökkt á útvarpinu og hlustaði bara á sjálfan mig hugsa) rann upp fyrir mér hvílíkur misskilningur það hafði verið í öll þessi ár að reyna að sannfæra Katrínu og Valgerði (og á tímabili einnig Martein bróður þeirra) um að grænmetisát leysti ekki loftlagsvandann. Mistök mín höfðu verið að líta á þessa lífsstílsbreytingu sem (óraunhæfa?) AÐGERÐ í stað þess að sjá hana sem (örvæntingarfulla?) TJÁNINGU.

Í öll þessi ár höfðu börnin á heimilinu verið að koma tilteknum skilaboðum á framfæri, við heiminn allan en þó kannski fyrst og fremst við okkur foreldra sína. Og þessi skilaboð eru bæði skýr og knýjandi: Þið verðið að grípa til einhverra (raunhæfari?) aðgerða, strax.

Aktívisminn hafði raunar ekki afmarkast við matarborðið. Valgerður var enn í barnaskóla þegar hún krafðist þess, eftir vikudvöl í sumarhúsi á Stöðvarfirði, að við tækjum allar glerflöskurnar, áldósirnar og plastflöskurnar sem safnast höfðu upp, með til Reykjavíkur þar sem ekki var verið að endurvinna slíkar umbúðir á Austfjörðum. Og það var að verulegu leyti fyrir hennar tilverknað að við ákváðum fyrir fáum árum að kaupa okkur nýjan bíl sem væri knúinn áfram af metan-gasi í stað þess að fjárfesta í enn einum bensíngleypinum. Það var reyndar fleira sem hvatti okkur þarna, gott verð (vegna niðurfellingar opinberra gjalda af vistvænum bílum) og lægri reksturskostnaður (metan er hlutfallslega ódýrara en bensín).

Og hún heldur áfram að þrýsta á okkur foreldranna, á sinn fallega og hugmyndaríka hátt, og ég finn að í hvert skipti sem hún nær árangri, í hvert skipti sem hún skynjar að á hana hefur verið hlustað og mark tekið á raunverulegum áhyggjum hennar af raunverulegum úrlausnarefnum á sviði umhverfis- og loftlagsmála þá vex henni hugrekki og von.

Þessi dagbók er fyrst og fremst skrifuð til hennar. Ég veit að það gleður hana að hafa fengið liðsauka, þó ekki sé nema frá einni afdankaðri karluglu. Við skiptumst stundum á á fáeinum nótum í gegnum spjallþráð í framhaldi af þessum pistlum, hér er sýnishorn frá því um daginn.

Ég skrifaði: „Heyrði í Hannesi bróður í gær, ræddi þá og reyndar einnig daginn sem ég kom frá Köben, við hann um umhvefismál og hann er farinn að hugsa um sum þessara efna. Domino-effekt af spjallinu okkar í Jótlandstúrnum. Og svo eru þessi mál líka mjög í umræðunni í öllum fréttum og fjölmiðlum. Maður þarf bara að nálgast þetta af bjartsýni og gleði, hvert lítið spor er spor í rétta átt.“

Hún svaraði: „Nákvæmlega, ekki segja að maður sé of gamall og þetta sé ekki manns eigin barátta.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s