„Þau eru framtíðin,“ sagði einn málkunningi minn, fullur aðdáunar og stolts, fyrir fáum dögum. Hann var að tala um börnin okkar. Ég hafði sagt honum frá samræðum okkar Valgerðar á Jótlandi fyrir tæpum tveimur vikum og það hafði komið í ljós að hann átti einnig dóttur sem hafði hugsað mikið um umhverfismál og reynt, af sínum veika mætti, að grípa til einhverra aðgerða.
Mig langaði mest til að skjóta fram eitraðri leiðréttingu: „Þú átt við þeirra er framtíðin,“ og bæta við, „ef um framtíð verður að ræða“. En ég beit í tunguna á mér, mat það svo að dómsdagsspár væru ekki best til þess fallnar að hleypa kjarki í nokkurn mann, allra síst sjálfan mig. Ég kinkaði bara kolli og sagði eitthvað á þá lund að við þyrftum að leggjast á árarnar með þeim til að gera þessa framtíð bjartari og lífvænlegri.
„Þau eru framtíðin.“ Þessi orð kölluðust á við aðdáunarorð sem ég heyrði á vörum fullorðins fólks í kringum mig um það leyti sem hérlend skólabörn tóku upp á því, að fyrirmynd jafnaldra sinna í öðrum löndum, að skrópa í skólanum til að mótmæla aðgerðarleysi heimsbyggðarinnar í umhvefismálum. „Rosalega flott hjá þeim,“ sagði einhver í mín eyru. Ég kinkaði kolli en hafði á því stigi ekki séð neinar beinar fréttir um þetta íslenska skólaverkfall né erlendar fyrirmyndir þess. Ég leitaði á vefnum og fann meðal annars lýsingu á hinum alþjóðlega ungmennahópi sem skipulagði mótmælin 15. mars og fékk birta áhrifaríka yfirlýsingu í breska blaðinu The Guardian: „Þar segir meðal annars að ungmenni heimsins séu raddlaus framtíð mannkyns. Þau samþykki þó ekki að lifa í ótta og örbirgð og kalla eftir aðgerðum, ellegar grípi þau til þeirra sjálf.“
Þegar ég las þessi orð rifjðust líka upp fyrir mér ýmsar fréttir af óformlegum leiðtoga þessarar grasrótabyltingar, sænsku unglingsstúlkunni Gretu Thunberg, og einhvern veginn gat ég tengt þessa aðdáun á mótmælunum á Austurvelli við eftirminnilega teikningu af Gretu þar sem henni er líkt við Línu langsokk. Ég tek mér það bessaleyfi að birta hana hér fyrir neðan.

Síðustu 10 daga hef ég hins vegar verið að horfa á þessa teikningu frá nýjum sjónarhóli. Hún er sama marki brennd og setningarnar „Þau eru framtíðin“ og „Rosalega flott hjá þeim“. Í öllum tilvikum erum við að leggja blessun yfir að börn okkar og barnabörn eru nú þegar byrjuð að axla þyngstu ábyrgð mannkynsins, þá sem við eldra fólkið höfum skapað en lengi neitað að horfast í augu við.
Og raunar eru það bara sum okkar sem klöppum þessum „krúttlegu krökkum“ á kollinn. Mörg okkar fara þveröfuga leið; við hæðum þau og spottum fyrir að vera ekki með raunhæfarlausnir á takteinum eða afgreiðum unglinga eins og Gretu með hugtökum á borð við móðursýki, einhverfa og asperger. Allt það dæmigerðasta í patróníserandi „rökræðum“ okkar við ungu kynslóðina birtist í hnotskurn í nafnlausum pistli í Viðskiptablaðinu fyrir þremur dögum. :
„Það er ástæðulaust að gera lítið úr þeim vanda sem loftslagsbreytingar geta valdið, en ætli menn sér að bregðast skynsamlega við, þá þurfa þeir líka að taka á þeim af skynsemi og huga að staðreyndum, ekki hræðsluáróðri og rugli.“
Höfundur þessara orða, sem kallar sig Tý, beitir hér sömu tækni og ég hef of oft gert andspænis mataræði minna dætra, og ég lýsti í dagbókarfærslu gærdagsins. En það má spyrja hvort það sé ekki jafnmikil firring að dást að Gretu og skólabörnunum sem hafa safnast saman víða um heim, þar á meðal á Austurvelli föstudag eftir föstudag á liðnum vikum. Þegar við gerum það erum vissulega að viðurkenna að úrlausnarefnin í umhverfismálum séu aðkallandi en um leið erum við að vísa þeim frá okkur og segja: Ég treysti á þig, Greta mín!
Ég vil þess vegna freista þess að setja fram aðra mynd af sænsku unglingsstúlkunni. Skugginn á veggnum er ekki af Sigurlínu Rúllugardínu Nýlendínu Krúsimundu Efraímsdóttur langsokk að jafnhatta hestinn sinn doppótta, heldur hinum gríska Atlasi. Greta og jafnaldrar hennar, dætur okkar og synir, eru með heiminn á herðunum. Við höfum hlaupið undan merkjum alltof lengi. Það er ekki seinna vænna að hlaupa undir bagga með þeim.
