Ágætur kunningi minn birti í morgun þarfa hugleiðingu á netinu um hve ófrjótt það er að ráðast á brýn úrlausnarefni í umhverfismálum úr pólitískum skotgröfum. Hann er ósammála þeim sem fullyrða að eina leiðin til að snúa við óhóflegri neyslu, sóun og mengun sé að strauja yfir kapítalismann á jörðinni (svolítið eins og þegar maður straujar hjá sér harða diskinn í tölvu sem er farinn að hökta) og hlaða inn nýju og vonandi betra stýrikerfi.
Ég tek undir sjónarmið þessa kunningja míns (sem ég hef reyndar aldrei hitt augliti til auglitis) en ég held að það sé samt ágætt að hafa í huga að það megi leita lausna á einstökum úrlasunarefnum eftir afar ólíkum leiðum, bæði hugmyndafræðilegum og pólitískum. Mig langar að skýra þetta með svolitlu dæmi, tóbaksreykingum og umtalsverðri flugumferð í kringum hnöttinn okkar græna.
Samkvæmt heimildum hagsmunaaðila í flugi flutti flugfloti heimsins 4,1 billjón farþega árið 2017 (mannkynið taldi þá um 7,5 billjónir sála). Alls dældi flugumferð heimsins um 859 milljónum tonna af CO2 út í andrúmsloftið þetta ár. Þetta var um 12% af kolefnislosun vegna umferðar faratækja í heiminum, bílar losuðu sex sinnum meira. Skilaboðin sem felast í þessum tölum eru hugsanlega þau að það sé forgangsmál að knýja bílaflota heimsins áfram með umhverfisvænum orkugjöfum; á viðkomandi upplýsingasíðu kemur fram að 80% flugferða eru 1500 kílómetrar eða lengi og í slíkum tilvikum séu ferðalög með lestum eða bifreiðum eða skipum mun lakari kostur en flugið og stundum ómöguleg.
Hér má rifja upp til samanburðar áratuga baráttu tóbaksframleiðanda gegn þeim sem fullyrtu að tóbaksreykur væri hættulegur heilsu reykingarmanna og þeirra sem væru í kringum þá. Tóbaksiðnaðurinn lagði áherslu á að tóbak væri ekki eins hættulegt eða ávanabindandi og ýmislegt annað, til að mynda sterkari efni. Formúluna orðaði Megas eftirminnilega: Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað.
Eftir því sem baráttunni vatt fram tóku stjórnvöld víða um heim sig til og lögðu skatta á tóbak í því augnarmiði að fæla kaupendur frá vörunni. Síðar bættust við viðvaranir á sígarettupökkunum sem voru framan af fremur hógværar en eru núorðið víða mjög beinskeyttar og jafnvel myndskreyttar. Tóbaksframleiðendur lögðu aftur á móti áherslu á að reykingar tilheyrðu eftirsóknarverðum lífsstíl, því að vera flott eða ögrandi týpa. Á vogarskálarnar lögðust líka vísindalegar niðurstöður og persónuleg reynsla (sá sem missir náinn ættingja úr krabbameini gæti hugleitt að hætta reykingum) og vógu þungt. En kannski var það ekki fyrr en aðrir sterkir kapítalískir hagsmunir (líkamsræktarstöðvar, íþróttavöruframleiðendur, o.frv.) blönduðust í leikinn að róður tóbaksframleiðenda fór verulega að þyngjast. Kannski má draga þann lærdóm hér að sósíalisminn og kapítalisminn, forræðishyggja og einkaframtak, þurfi að leggjast saman á árarnar við að framkalla róttækar lífsstílsbreytingar meðal almennings.
Ef við heimfærum reykingar yfir á flugferðir þá er vissulega um fjölmargar ólíkar leiðir að ræða til að minnka kolefnisútblástur úr þotuhreyflum. Hér eru fjögur dæmi:
a) Skattleggja flug. Stjórnvöld myndu líklega kalla skattinn kolefnisskatt, umhverfisskatt eða grænan skatt og nota fjárhæðina til að góðra verka (t.d. að endurheimta votlendi og auka þar með kolefnisbindingu).
b) Gera það að eftirsóknarverðum og flottum lífsstíl að fljúga ekki meira en maður kemst af með. Einstaklingurinn myndi þá af skömmum sínum hætta að pósta ljósmyndum af sér í utanlandsferðum á samfélagsmiðlum og berja sér í staðinn á brjóst í hvert sinn sem hann hefði átt kost á að fljúga en sagt neibb.
c) Merkja alla flugmiða með viðvörun, líkri þeirri sem finnst á sígarettupökkum. Hér er fremur hógvær útgáfa: „Flugferðirnar sem þú hefur keypt (Reykjavík-Kaupmannahöfn-Reykjavík) losa þriðjung úr tonni af CO 2. Flugferðir eru slæmar fyrir umhverfið.“
d) Flugfélög gefa öllum þeim sem kaupa flugmiða á netinu kost því að kolefnisjafna flugið (rétt eins og þeir eiga kost á að velja sér nýtt sæti eða styrkja vildarbörnin). Í stað þess að senda verðandi farþegum sms með áskoruninni: Do you wan’t to upgrade your flight, gæti flugfélagið jafnvel sent svohljóðandi skilaboð daginn fyrir flug: Do you want to downgrade your flight and save the planet? Fly to Copenhagen in Economy Class for the same price as in Saga Class, and feel better about yourself.
Ég geri mér grein fyrir að allar eru þessar leiðir umdeilanlegar og líklega misráðið að leggja flug og reykingar að jöfnu. Þetta er fyrst og fremst svolítil hugarleikfimi á fimmtudagskvöldi, stunduð af manni sem nennir ekki að horfa á Eurovision og hefur flogið eins og hann ætti að lífið að leysa mörg undanfarin ár. Honum er nær að drífa sig í göngutúr með Tý.