Við pöntuðum okkur báðir steinbít, vinur minn rithöfundurinn og ég, þegar við snæddum saman hádegisverð í vikunni. Þjóninn spurði hvort við vildum sjá vínseðilinn en við sögðumst báðir bara vilja vatn. Fiskurinn bragðaðist vel, við gátum ekki fundið að í honum leyndist neinar plastagnir en vissum þó báðir að þær væru líklega á þessum einfalda matseðli okkar.
(Úr frétt RÚV frá 2017: „Ein akrílpeysa gefur frá sér 750 þúsund plastagnir þegar hún er þvegin og þær enda úti í sjó … Vitað er að plast er hættulegt lífverum í hafinu. Þær geta fest sig í plasdrasli, plastið festist líka í meltingarfærum dýranna, neysla plastagna veldur næringaskorti, smáar plastagnir ganga inn í frumur dýranna og efni í plasti geta valdið eitrun o.s.frv“).
Eins og ég nefndi fyrr í vikunni vildi rithöfundurinn banna ALLT plast þegar í stað og honum hitnaði raunar mjög í hamsi eftir því sem leið á máltíðina yfir þeirri útbreiddu firru að það væri á ábyrgð hvers og eins einstaklings að lifa í sátt við umhverfið; að lausnin á umhverfisvandanum, hamfarahlýnuninni, menguninni, óbærilegum sóðaskap og slóðaskap mannkynsins gagnvart lífríkinu fælist í því að nota maíspoka frekar en plastpoka, hjóla í vinnuna frekar en að aka bíl. Duglaus stjórnvöld og gírugir kapítalstar bæru ábyrgðina á sukkinu en legðu að sjálfsögðu allt kapp á að fylla valdalausa einstaklinga samviskubiti yfir því að fljúga milli landa. „Þetta er alveg sama ruglið og þegar útrásarvíkingarnir og ríkisstjórnin vildu skella skuldinni af bankahruninu á litla manninn sem hafði keypt sér flatskjá.“
Við sátum örugglega í rúman klukkutíma yfir tómum diskunum og tefldum röklegt þrátefli um þessi efni. Hann vildi stofna róttækan umhverfisflokk sem bannaði ALLT plast þegar í stað (rétt eins og menn hefðu bannað freon og aspest) og legði nógu andskoti háa skatta á alla þá starfsemi sem væri mengandi (flug, álver, bensín, …). Ég tók hinn pólinn í hæðina, sagði nauðsynlegt fyrir hvern þann sem vildi láta taka mark á sér í umhverfisumræðunni að taka fyrst til í eigin ranni, og taldi lykilinn að því að róttæki umhverfisflokkurinn næði inn á þing almenn vitundarvakning í grasrótinni.
„Vitundarvakning?“ sagði vinur minn, rithöfundurinn, svolítið skeptískur á svip. „Ég vil notað orðið UPPLJÓMUN. Mannkynið allt þarf að sjá heiminn og sig sjálft með algjörlega nýjum augum, átta sig á að allt tengist, að manneskjan sem stendur við hliðina á þér í röðinni í Nettó eða neðanjarðarlestinni er ekki einhver annar heldur eruð þið bæði hluti af því sama, að það er ekki meiri munur á þér og þessari manneskju, eða þess vegna einhverjum ferjumanni í fjarlægasta hluta Asíu, og verðandi móður og barninu sem hún ber undir belti.“
Það var heillandi að sjá hvernig honum hafði tekist að tala sig úr bölmóði rökræðnanna yfir í þessa fögru en algjörlega óraunhæfu hugsjón. En stundin var hverful, hugur hans vóg salt í svolitla stund og svo sá ég hvernig blikið í augum hans flökti og fjaraði út. Við sátum saman í þögn svolitla stund. Svo opnaði hann aftur munninn, orðin streymdu út eins og langt andvarp, næstum áþreifanlegur andardráttur:
„Vandinn er að þegar ég geng um heiminn og horfi á hin manndýrin – og hugsa um mannkynssöguna þá hugsa ég: aldrei hefur manndýrið sleppt vellystingum sem bjóðast, aldrei hefur manndýrið stefnt frá þægindum til erfiðis, aldrei valið styttra líf og hættulegra í stað hins … það er líklega ekki í eðli tegundarinnar. En afsakið hann mig, ég er ekki á upplýsta og bjarta hluta skógarins þessa dagana.“
Svo lyfti hann hendinni upp, svolítið dramatískt, og gaf þjóninum merki um að kominn væri tími til að gera upp reikninginn.