19 (3981 eftir)

Líklega gerðu rappararnir á Austurvelli gæfumuninn en slagorðin höfðu líka sín áhrif á það að hádegislúrinn hans Múla Björvins var stuttur í annan endann.

Við félagarnir vorum mættir á stéttina við Hallgrímskirkju laust fyrir klukkan tólf til að taka þátt í alþjóðlega loftlagsverkfallinu. Drjúgur hópur barna og unglinga með kröfuspjöld stóð á víð og dreif og svo voru þarna nokkrir fullorðnir einstaklingar, líklega mest pabbar, mömmur, ömmur og afar (eins og ég), yfirleitt með börnum sínum og barnabörnum (eins og Múla).

Við vorum á að giska þrjú þarna með barnavagna, þar á meðal ung leikkona sem ég er málkunngur. Við gengum samsíða hluta leiðarinnar. Hún sagðist hafa fengið lánað kornungt barn vinkonu sinnar til að geta með góðri samviku tekið þátt. Hún viðurkenndi að hún hefði aldrei gengið í kröfugöngu áður, ekki einu sinni á 1. maí, eða tekið nein pólitísk viðfangsefni til sín. En af einhverjum ástæðum ættu nú umhverfismálin hug hennar allan.

Strákur sem stóð skammt frá mér hafði orð á því að þarna væru eiginlega of margir fullorðnir; ég leit afsakandi á hann og sagðist bara vera buttler unga drengsins í vagninum. Og ég bætti við að það væri fremur gagnlegt að við sem eldri værum áttuðum okkur á hvað þarna væri að gerast og legðum við hlustir.

Kröfurnar voru einfaldar og skýrar. Slagorð þessarar 15 loftlagsgöngu íslenskra ungmenna á föstudegi byrjuðu að hljóma um það leyti sem við snigluðumst af stað framhjá styttunni af Leifi heppna: „Hvenær viljum við aðgerðir? NÚNA! Hvenær? NÚNA.“ Þetta orð, NÚNA, hljómaði líklega hundrað sinnum í hádeginu, það bergmálaði milli íbúðarhúsanna á Skólavörðustígnum, milli verslanna og veitingastaða á Laugavegi og í Bankastræti, milli dómshússins og stjórnarráðsins við Lækjartorg og svo milli atriða á Austurvelli. Kröfugerðin var skýrð með málefnalegum og nákvæmum hætti af krökkunum sem stigu upp í ræðustólinn í björtu sólskininu en á vefsíðu verkfallsins er hún orðuð svo:

„Stjórnvöld hafa sett sér aðgerðaráætlun í loftslagsmálum og stefna á kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 en árleg losun jókst síðast um 2,2% á milli ára! Betur má ef duga skal! Núverandi aðgerðaáætlun er ekki í samræmi við markmið um að halda hlýnun innan 1,5°C á heimsvísu og við krefjumst róttækra aðgerða til að ná því markmiði. Ljóst er að stórauka þarf fjárframlög til loftslagsaðgerða. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) metur að árlega þurfi að leggja 2,5% af vergri landsframleiðslu allra þjóða, allt til ársins 2035, til að bylta orkukerfum heimsins ef halda á hnattrænni hlýnun innan við 1,5°C. Þó við séum með endurnýjanlegt rafmagn og hita á Íslandi þá erum við rík þjóð með hátt kolefnisspor og ættum að lágmarki að leggja jafn mikið og aðrar þjóðir í aðgerðir gegn loftslagsvánni. Áætlun stjórnvalda hljóðar upp á 1,36 milljarða á ári næstu fimm árin en það er einungis 0,05% af vergri landsframleiðslu. Atvinnulífið þarf einnig að axla ábyrgð en ekki er ljóst hvert framlag þess er í dag. Við krefjumst þess að Ísland taki af skarið, hlusti á vísindamenn, lýsi yfir neyðarástandi og láti hið minnsta 2,5% af landsframleiðslu renna beint til loftslagsaðgerða. Við viljum afdráttarlausar aðgerðir. Núna. Fyrir komandi kynslóðir. Fyrir loftslagið.“

Á Austurvelli hafði fjöldi fullorðinna aukist umtalsvert. Í hópnum sá ég nokkra þingmenn; tvo úr Vinstri Grænum, einn úr Samfylkingu og mér var tjáð að einhverjir Píratar væru þarna líka. Það gladdi mig að þeir skyldu hafa yfirgefið kafkaískan þingsalinn (sem hefur síðustu daga verið í herkví Miðflokksmanna) til að hlusta á málefnalega umræðu um efni sem skiptir margfalt meira máli fyrir framtíð þessara og allra annarra krakka en þriðji orkupakkinn. Ein þeirra stúlkna sem steig upp í ræðustólinn á Austurvelli sagði að þau myndu ekki hætta að hittast á föstudögum í hádeginu fyrr en ræðurnar þeirra væru farnar að hljóma úr ræðustól þingsins. Önnur sagðist vera í blóma lífsins, sextán ára, með framtíðina fyrir sér. Sú framtíð sem blasti við henni væri hins vegar afar ógnvænleg. Hún krafði þingmennina (og okkur sem berum ábyrð á veru þeirra á Alþingi) um leggja grunn að tryggari framtíðar. Sú þriðja sagðist ekki vera með svörin við umhverfisvandanum uppi í erminni enda væri hún bara barn. En hún furðaði sig á tilhneigingu okkar sem ættum að heita fullorðin, til að loka bara augunum.

Múli Björvin svaf vært meðan vagninn vaggaði niður eftir Skólavörðuholtið en þegar við námum staðar á Austurvelli fór hann aðeins að bylta sér, ekki síst þegar orðið NÚNA hljómaði hátt og snjall allt í kringum okkur. Ég kíkti nokkrum sinnum undir gallajakkann minn sem ég hafði breitt yfir vagninn. Drengurinn virtist vera í svefnrofunum en þegar tveir ungir rapparar hófu að kyrja sinn söngva sína um fugla himinsins varð ekki aftur snúið. Taktviss tónlistin hreif ársgamlan drenginn endanlega úr ljúfum heimi draumanna. Veruleikinn kallaði hann til þátttöku.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s