Nýi umhverfisflokkurinn, sem vinur minn rithöfundurinn hyggst stofna, mun væntanlega hafa mun róttækari stefnuskrá í umhverfismálum en Vinstri Grænir. Hann mun hugsanlega taka mið af stefnu Græningjanna í Þýskalandi en einhver mestu tíðindin í úrslitum kosninga til Evrópuþingsins um helgina var góð niðurstaða þeirra (og sumra systurflokka þeirra í öðrum löndum).
Flokkur Græningja í Þýskalandi fékk um 20% greiddra atkvæða og hefur í raun tvöfaldað fylgi sitt frá árinu 2014. Aðeins einn flokkur fékk betri útkomu (28%) og þegar aðeins er hugað að yngstu kjósendum þá eru Græningjarnir með langbestu útkomuna, eða um 30% fylgi. Talað er um Gretu-áhrifin í þessu sambandi og vísað þar til loftlagsbaráttunnar sem börn og unglingar hafa staðið fyrir víða um lönd á þessum vetri.
Efst á stefnuskrá hins nýja og róttæka íslenska Græningjaflokks verður krafa ungmennanna okkar um að „Ísland taki af skarið, hlusti á vísindamenn, lýsi yfir neyðarástandi og láti hið minnsta 2,5% af landsframleiðslu renna beint til loftslagsaðgerða“. Og svo kemur nánari útfærsla:
- Ráðist verður strax og af myndarskap í að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá álverum og orkufyrirtækjum en þar er CarbFix aðferðin (sem ég hef nefnt stundum áður) ákjósanlegur kostur, þótt kostnaðurinn sé umtalsverður.
- Lögð verður fram áætlun um stórátak í ræktun repju með það fyrir augum að knýja íslenska fiskiskipaflotann með innlendum orkugjafa.
- Flýtt verður enn frekar fyrir orkuskiptum bílaflotans með auknum sköttum á bensín- og díselbíla og niðurfellingu allra opinberra gjalda á bíla sem eru knúnir umhverfisvænum orkugjöfum.
- Tekin verður að nýju upp barátta fyrir því að Íslendingar sæki heim landið sitt, fremur en að þvælast um heiminn. Með þessu móti verður vegið upp á móti fækkun erlendra ferðamanna til Íslands.
- Vinnuferðalög opinberra starfsmanna verða skorin við nögl; forseti og ráðherrar ganga þar á undan með góðu fordæmi, ekki bara með færri ferðum og fjölgun símafunda heldur einnig með léttari sendinefndum.
Veigamesta framlag flokksins til opinberrar umræðu um loftlagsmál verður að leysa upp afarkostina sem einkenna um of deilur um efnið. Í stað þess að stilla upp pólitískum valkostum sem tengja má hægri (einstaklingsframtak) og vinstri (opinber afskipti) stefnu mun flokkurinn benda á að nýta þurfi báðar (eða allar) leiðir til að ná árangri. Lausnin felist ekki í því að velja á milli A og B heldur að gera hvort tveggja. Þegar spurt verður, til að mynda, hvort sé betra til árangurs, a) aukin upplýsingagjöf um slæmar afleiðingar loftlagsbreytinga eða b) að blása út fréttir af nýjum og áhugaverðum lausnum þá verður svarið: Hvorugt. Best sé að gera hvort tveggja samtímis.
Nýi róttæki umhverfisflokkurinn mun brýna fyrir einstaklingum, einkafyrirtækjum, opinberum stofnunum, bæjarfélögum og ríkisvaldinu að setja upp afar ólíka forgangslista í umhverfis- og loftlagsmálum. Á meðan veigamesta aðgerð lítillar fjölskyldu getur falist í því að kaupa rafmagnsbíl eða fækka flugferðum þá getur veigamesta aðgerð tiltekins bæjarfélags (til dæmis hér sunnan lands) falist í að hætta að urða lífrænan úrgang og framleiða moltu (líkt og gert er norðan heiða). Þeim sem ætla eyða tímanum í að rífast um hvort einstaklingar eða stjórnvöld eigi að bera ábygð á lausn mála verður vinsamlega bent á að hér sé um sameiginlegt verkefni allra að ræða. Breytingarnar verði að gera í stóru og smáu.
Tveir einstaklingar sem þekkjast ekki en hafa um langt skeið unnið að því að draga úr mengun hér á landi (annar er vísindamaður, hinn sér um umhverfisstefnu hjá opinberri stofnun) sendu mér hvor sinn póst í liðinni viku. Í öðrum póstinum sagði: „Það er svo mikið að gerast um þessar mundir, sem betur fer. Vonandi förum við að sjá stór skref núna.“ Í hinum sagði meðal annars: „Ánægjulegt að finna hvað viðhorfið er að breytast hratt, í fyrra fannst mér allir reyna að eyða tali um flug og umhverfismál en núna er fólk farið að koma með hugmyndir að eigin frumkvæði um hvernig eigi að draga úr ferðum.“
Það er vor í lofti, það er sól og blíða, það er von í brjóstum.