24 (3976 eftir)

Það lá úrklippa úr Morgunblaðinu á morgunverðarborðinu hans pabba í morgun. Þar var reyndar líka að finna brauð, tómata, baunaspírur, salat, ost, smjör og ávaxtasafa. Á meðan við gæddum okkur á því síðarnefnda spjölluðum við um það fyrrnefnda; viðtal við mann á nítræðisaldri sem var nýbúinn að kaupa sér sinn annan rafmagnsbíl. Pabbi hafði klippt viðtalið út úr blaðinu vegna þess að síðast þegar við hittumst vorum við að spjalla um væntanleg bílakaup hans.

Pabbi er á áttræðisaldri en hefur lengi verið að velta fyrir sér hvort að það sé tímabært fyrir sig að kaupa rafmangsbíl. Þar hefur hann horft til tveggja þátta: a) lægri rekstrarkostnaðar og b) umhverfissjónarmiða. Viðtalið í Morgunblaðinu hafði hins vegar aðeins dregið úr áhuga hans á hreinræktuðum rafmangsbíl; gamli maðurinn sem þar var rætt við segir að það geti verið seinlegt að ferðast um landið á rafmangsbíl, oft séu langar raðir við hleðslustöðvar og þær eru ekki á hverju strái. „Kannski er málið að fá sér einhvers konar hypbrid-bíl?“ sagði pabbi spyrjandi, án þess þó beinlínis að ætlast til að ég svaraði. Hann spurði nefnilega strax í kjölfarið hvort ég vildi meira kaffi.

Pabbi hefur talað um það alloft að við tveir séum eiginlega orðnir jafnaldrar; eftir þrítugt sé í sjálfum sér allur aldur jafngildur. Ég er að nokkru leyti sammála en myndi vilja setja þessi mörk nær fertugu, jafnvel fimmtugu. Um daginn tók ég hér á þessum vettvangi undir þau sjónarmið greinarhöfundar Politiken að karlmenn um fimmtugt og eldri væru helsta umhverfisógn samtímans. Nokkrir kynbræður mínir hafa skammað mig fyrir það, biðja mig fyrir alla muni að smitast ekki af sjálfshatri hins hvíta miðalda karlmanns, en ég svara því til að margar af þeim krefjandi ákvörðunum sem þurfi að taka til að bregðast við áskorunum í umhverfismálum séu að verulegu leyti á okkar hendi.

Kannski er hægt að hugsa sig áleiðis í gegnum þessi sjónarmið með hliðsjón af bílakaupum.

Nú eru liðin um fjögur ár síðan við fjölskyldan keyptum okkur í fyrsta skipti glænýjan bíl. Fram að því höfðu bílakaup okkar miðast við það úrval af notuðum bílum sem var á bílasölum landsins. Ég vil af þessum ástæðum og fleirum trúa því að umtalsverður hluti þeirra sem kaupi nýja bíla séu einstaklingar sem eru þokkalega fjáðir og að drjúgur hluti þeirra sé einstaklingar sem eru í efri aldurshópum.

Margt hafði áhrif á val okkar á bíl, þar á meðal áhugi Valgerðar á að við foreldrarnir keyptum umhverfisvænan bíl. Það sem réði hins vegar úrslitum var að mágur minn hafði kannað vel bílamarkaðinn og komist að þeirri niðurstöðu að bestu kaupin í nýjum bíl fælust í tegund X og að besti kosturinn innan hennar væri bíll sem gengi bæði fyrir metani og bensíni. Við hjónin ákváðum því (í góðu samkomulagi) að fara að dæmi hans. Hæpið er álykta út frá okkar dæmi að karlmennirnir á íslenskum heimilum hafi mest um það að segja hvernig bílar eru keyptir (á mörgum heimilum eru vel að merkja engir karlmenn) en ég vil samt staðhæfa að karlmenn um miðjan aldur og eldri hafi mest um það að segja hvort að orkuskipti íslenska bílaflotans á næstu árum og áratugum gangi fljótt eða hægt fyrir sig.

Og þetta var innlegg mitt í samræður okkar feðga í morgun: „Þegar þú kaupir þér næst bíl,“ sagði ég við hann, „ertu ekki aðeins að taka ákvörðun um hvort þú akir um á rafmagnsbíl eða bensínbíl næstu árin heldur ertu í raun að taka ákvörðun fyrir einn eða fleiri kaupendur sem munu eignast þennan bíl eftir fáein ár.“

„Þetta er ansi stór ákvörðun,“ hélt ég áfram eftir svolitla þögn sem átti að gera þessa niðurstöðu svolítið dramatíska og vega upp á móti ummælum gamla mannsins í Morgunblaðinu um hleðslustöðvarnar úti á landi. Og til vonar og vara bætti ég því við að það skipti kannski engu meginmáli þótt maður þyrfti að bíða eftir hleðslu stund og stund á flakki sínum um landið. „Það er ekki eins og manni liggi lífið á.“

Pabbi kinkaði hugsandi kolli. Og svo spurði hann mig hvort ég væri búinn að smakka baunaspírurnar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s