„Jafnaðu þig hjá Orkunni“ stóð stórum stöfum framan á einu Fréttablaði vikunnar. Forsíðan var lögð undir ljósmynd af gömlum bláum Benz sem í sátu þrjár glaðlegar konur en fyrir utan stóð eldri maður (á mínum aldri eða ríflega það) í bleikum bol. Hann var að dæla bensíni eða díselolíu á tankinn. Neðst á myndinni stóð með aðeins minni stöfum: „Kolefnisjafnaðu eldsneytiskaupin með Orkulyklinum strax í dag.“

Þessi auglýsing var hluti af fjórblöðungi frá Orkunni (alias Skeljungi) sem hinu eiginlega Fréttablaði var pakkað inn í. Erindi hans var að upplýsa okkur neytendur um nýjan samning Orkunnar við Votlendissjóðinn en ein síða fjórblöðungsins var lögð undir auglýsingu frá honum. Þar kom fram að langstærstur hluti losunar gróðurhúsalofttegunda hérlendis kemur frá „framræstu eða minkuðu votlendi“. Í auglýsingunni er talað um 66% en í vikunni voru kynntar niðurstöður nýrrar rannsóknar sem benda til að prósentutalan sé allt að 88% á afmörkuðum svæðum landsins (þeim svæðum sem ekki hýsa stóriðju).
Í ljósi þessara upplýsinga er einkennilegt að stjórnvöld hafi ekki fyrir löngu ráðist í opinberar aðgerðir til að fylla upp í skurði og endurheimta votlendi, eins og Halldór Laxness krafðist af mikilli einurð í sígildri blaðagrein í Tímanum (málgagni bændaflokksins) árið 1971. Í greininni réðst hann gegn þeirri sjálfsblekkingu okkar að landið sem við byggjum státi af ósnotrinni náttúru: Hið sanna í málinu, sagði skáldið, er „að Ísland er eina landið í Evrópu sem er gerspilt af mannavöldum“. Votlendissjóðurinn er hálf-kapítalísk lausn til að ráðast í þetta tímabæra verkefni en sjóðurinn er „milliliður eigenda framræsts lands sem vilja endurheimta votlendi og þeirra sem vilja leggja vinnu í slíkt verkefni. Sjóðurinn skipuleggur framkvæmdirnar og tryggir að losun sé stöðvuð á faglegan og skilvirkan máta“.
Í orðinu „hálf-kapítalísk“ felst enginn áfellisdómur af minni hálfu. Mörg mikilvæg þjóðþrifaverkefni eru rekin með líkum hætti, að verulegu leyti með framlögum einstaklinga og fyrirtækja fremur en skattpeningum. Nægir þar að nefna hjálparsveitirnar okkar. Og sjóðurinn er að ýmsu leyti hálfopinbert fyrirbæri. Fagráð Votlendissjóðsins er skipað færum vísindamönnum á sviði náttúrufræði og visfræði, en í því sitja einnig verkfræðingur og landslagsarkitekt. Verndari verkefnisins er opinber starfsmaður, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Meðal stofnaðila eru Auðlind – minningasjóður Guðmundar Páls Ólafssonar, EFLA verkfræðistofa, Elding hvalaskoðun, Íslandsbanki, Landgræðslan, Reitir fasteignafélag, Samskip og fyrirtækið Þekkingarmiðlun sem sérhæfir sig í ráðgjöf og fyrirlestrarhaldi til að styrkja einstaklinga og fyrirtæki. Annar stofnandi Þekkingarmiðlunar, Eyþór Eðvarsson, er stjórnarformaður Votlendissjóðsins og einn helsti hugmyndasmiðurinn á bakvið hann.
Enn er einn stofnaðili sjóðsins ónefndur en það er olíufélagið Skeljungur, eins og það hét í mínu ungdæmi. Hið rótgróna fyrirtæki, sem hét upphaflega HF Shell á Íslandi, hefur nú endurskilgreint sig sem orkufélag, og breytt nafni sínu í samræmi við það, enda staðráðið í að lifa af þau orkuskipti sem framundan eru, hér á landi og annars staðar. Í áðurnefndum fjórblöðungi kemur fram að Orkan bjóði upp á metan á tveimur sölustöðum og hafi þar að auki verið að opna fjölorkustöð þar sem „ökumenn geta fyllt á bílinn með metangasi, rafmagni í hraðhleðslu og vetni“. Bensín og díselolía eru ekki nefndar í því sambandi en vissulega eru þeir orkugjafar einnig á boðstólum á viðkomandi stöð, eins og á öllum öðrum „bensínstöðvum“ fyrirtækisins.
Aðild Skeljungs að Votlendissjóðnum er fagnaðarefni sem og fjórblöðungurinn margumræddi sem gefur til kynna að Orkan taki hlýnun jarðar af mannavöldum alvarlega og vilji bregðast við af ábyrgð og festu. Í blaðinu kemur fram að öll innri starfsemi fyrirtækisins sé nú kolefnisjöfnuð í gegnum Votlendissjóðinn (þriggja ára samningur hefur verið undirritaður) og svo er viðskiptavinum nú gefinn kostur á að láta hluta af þeim afslætti sem þeir geta fengið í gegnum Orkulykilinn renna í Votlendissjóðinn. Það er sú leið sem skýrir slagorðið á forsíðunni: „Jafnaðu þig hjá Orkunni“.
En það er samt eitthvað í þessu öllu saman sem truflar mig. Hugsanlega stafar tortryggnin af því að ég horfði á fyrsta þáttinn af bandarísku þáttaröðinni Mad Men í gærkvöldi. Þátturinn er að hluta til helgaður þeirri kreppu sem tóbaksframleiðendur lentu í á sjöunda áratugnum þegar þeir gátu ekki lengur logið því blákalt að reykingar væru hættulausar heilsu manna. Þetta kallar á nýjar lausnir í markaðssetningu sem Don Draper og félagar hans á Sterling Cooper auglýsingastofunni þurfa að hafa á takteiknum þegar framleiðendur Lucky Strike mæta á fund til þeirra í lok þáttarins. Snilldarlausn Drapers byggir á því að auglýsingabransinn selji fólki hamingju, það er hans hlutverk að láta okkur líða vel yfir að gera það sem við gerum, hvort sem það er holt eða óholt, hættulaust eða lífshættulegt.
Íslensku olíufélögin og auglýsingastofurnar þeirra standa frammi fyrir viðlíka áskorun þessi misserin. Það er út af fyrir sig lofsvert að Orkan skuli ætla að veita þeim sem aka um á vetnis-, metan- og rafmagnsbílum góða þjónustu en mér virðist að fjórblöðungur fyrirtækisins og tenging Orkulykilsins við Votlendissjóðinn hafi þó fremur þann tilgang að varðveita og jafnvel auka hamingju þeirra sem brenna jarðefnaeldsneyti í hvert skipti sem þeir bregða sér af bæ. Benzinn (lesist: bensín?) á forsíðunni er kominn til ára sinna, hann virðist vera frá tíma karlrembunnar Don Drapers, þeim tíma þegar það þótti sjálfsagt að reykja undir stýri (þótt við börnin værum bílveik, ælandi í afturstæinu) og bensín var tiltölulega ódýrt.
Fyrir allmörgum árum skrifaði ég stutta blaðagrein um hina fullkomnu tóbaksauglýsingu, þar sem reykingar voru tengdar við hreina náttúru, útivist og tært andrúmsloft. Ég er ekki á því að fjórblöðungur Orkunnar sé algjörlega fullkomin bensínsauglýsing en mér sýnist að auglýsingastofa fyrirtækisins sé komin vel á veg með að þróa hana. Þar verða neytendur sannfærðir um að áframhaldandi bensínkaup þeirra bjargi jörðinni frá yfirvofandi hamfarahlýnun. Gamli maðurinn í bleika bolnum verður áfram í forgrunni, silkislakur, með sígarettu milli varanna og bensínbyssuna á lofti.