Vinur minn einn las síðustu dagbókarfærslu, sem fjallaði um umhverfisstefnu Orkunnar, og benti á að í bakgrunni ljósmyndarinnar af manninum í bleika bolnum framan á fjórblöðungi olíu/orku-fyrirtækisins megi sjá hina sögufrægu Fornhagablokk. „Það sést líka í blokkina mína í bakgrunni,“ skrifaði þessi vinur minn, „þar starfar sérstök umhverfisnefnd, getur varla verið tilviljun.“
Í ljós kom að íbúar blokkarinnar höfðu á liðnu ári tekið höndum saman um að lifa í eins góðri sátt við umhverfið og mögulegt er. Hugmyndina átti Sólrún Harðardóttir en ásamt henni sitja fjórir aðrir íbúar Fornhagablokkarinnar í umhverfisnefndinni og halda úti afar upplýsandi umhverfisvef, sem hefur þann tilgang að stilla saman strengi þessa litla samfélags. Þar má meðal annars finna upplýsingar um sorpflokkun, safnhaug hússins, plastlausan mánuð, og ótal margt annað sem miðar að vistvænum lífsstíl. Sérstaka athygli mína vakti pistill þar sem bent er á að neytendur geti mætt í fiskbúðina eða kjötbúðina með sín eigin margnota ílát í stað þess að láta enn einu sinni pakka ferskum matvælum í plast á plast ofan.
Umhverfisnefnd Fornhagablokkarinnar og samtakamáttur íbúanna í þessu efni hefur ekki aðeins vakið athygli fjölmiðla heldur einnig borgaryfirvalda sem framleiddu stutt myndband um framtakið.
Þetta átak íbúa Fornhagablokkarinnar er tileinkað komandi kynslóðum eins og fram kemur í fyrstu færslunni á vef umhverfisnefndarinnar. Þar segir meðal annars: „Þetta er Óliver Orri. Hann er fæddur í júlí 2017 og er líklega yngsti íbúi blokkarinnar okkar. Fyrir hann, fyrir öll börn, fyrir komandi kynslóðir, fyrir orðspor okkar sjálfra og fyrir hina undursamlegu náttúru sem við erum jú partur af, skiptir öllu máli að við breytum lifnaðarháttum okkar.“
Það er gaman að geta þess að vinur minn sem þarna býr er bókmenntafræðingurinn og skáldið Haukur Ingvarsson en hann gaf út á liðnu ári ljóðabókina Vistarverur sem fjallar í og með um vistkerfið og hin djúpu vistspor okkar mannanna. Þar er meðal annars að finna eftirminnilegt ljóð sem lýsir Fornhagablokkinni og hefst á þessum orðum: „ég hef / vaxandi / áhyggjur / af hækkandi / yfirborði sjávar // ég bý á fjórðu hæð / en nærri hafi // í kjallaranum / undir húsinu / á ég geymslu / þar geymi ég / ýmislegt / sem mér er kært // og ég vil síður / að blotni“.
Umhverfisnefnd Fornhagablokkarinnar er gott dæmi um það hvernig við getum látið til okkar taka í umhverfismálum með afar fjölbreyttum hætti; í persónulegu lífi okkar, á vettvangi fjölskyldunnar, í samstarfi við nágranna, á vinnustaðnum, og með pólitísku starfi, þrýstingi og fræðslu á vettvangi hreppsins, íþróttafélagsins, bæjarfélagsins, borgarinnar eða ríkisins. Og svo að sjálfsögðu á alþjóðavettvangi, líkt og annar vinur minn og samstarfsmaður, bókmenntafræðingurinn Guðni Elísson, hefur gert um árabil, meðal annars með hinu öfluga og fjölbreytta upplýsingastarfi Earth 101. Málið snýst ekki um að ein leið sé réttari en önnur. Það þarf að vinna á öllum þessum vígstöðvum samtímis.