30 (3970 eftir)

„Maður fær samviskubit þegar maður talar við þig um ferðalög,“ sagði ein samstarfskona mín við mig í gær, „ég er alveg bersyndug“. Hún vísaðir þarna óbeint til undirskriftarlista sem við stöndum að, nokkrir háskólakennarar, í þeim tilgangi að hvetja skólayfirvöld til að ýta ekki undir óþarflega margar ferðir starfsmanna til útlanda. Ég bað hana blessaða að athuga að ég væri jafnmikil flökkukind og flestir aðrir, ég væri nýkominn frá Danmörku og hefði nú áform um að fljúga til Kanada með haustinu. Þó að ég hefði lofað sjálfum mér að draga úr mínu eigin flugi þá fælist ekki í slíkri ákvörðun nein krafa eða áfellisdómur á hendur öðrum.

Þetta var hvorki í fyrsta né eina skiptið síðustu vikur sem samræður mínar við vini og kunningja um umhverfismál snúast upp í hálfkristilegalega orðræðu. Svo virðist sem hugsanir okkar um mengun jarðar falli ósjálfrátt ofan í þau djúpu hjólför sem trúarbrögðin hafa mótað í menningunni um aldir. Sá sem flýgur milli landa, ekur um á bensínbíl, flokkar ekki ruslið sitt eða borðar nautakjöt er „syndari“, sá sem tekur opinberlega til máls um umhverfismál og hvetur til góðrar umgengni við náttúruna og jörðina er ósjálfrátt að lýsa yfir „siðferðilegum yfirburðum“ sínum. Eða hvað?

Ég held að þetta sé ekki neitt sérstaklega frjó leið til að hugsa um aðkallandi verkefni á sviði umhverfisverndar. Flest þeirra, að minnsta kosti þau allra brýnustu, velta ekki á „síðferðilegu“ vali einstaklingsins í sínu hversdagslega lífi heldur stefnumarkandi ákvörðunum þjóðríkja og alþjóðlegra stórfyrirtækja. Áhrifaríkasta leiðin til að draga úr farþegaflugi , svo dæmis sé tekið, felst í skattheimtu sem tryggir að hver einasti farþegi beri kostnaðinn af því að kolefnisjafna viðkomandi ferð. Slíkt myndi í senn skila sér í róttækari verkefnum á sviði trjáræktar, endurheimts votlendis eða niðurdælingu kolefnis og draga úr flugumferð í heiminum (vegna hærra verðs). Stjórnmálamenn og stjórnendur stórfyrirtækja kunna að sjá ákveðinn tækifæri í því að velta ábyrgðinni sem hvílir þung á þeirra öxlum yfir á hinn „bersynduga“ einstakling. Á meðan athyglin beinist að skaðlegum lífsvenjum, sem vissulega er ástæða er til að breyta, er stórum ákvörðunum slegið á frest.

Í áætlun íslenskra stjórnvalda í umhverfismálum fyrir árin 2018-2030 er ekki tekið af neinni alvöru á neikvæðum umhvefisáhrifum vegna flugferða og stóriðju hérlendis. Um síðarnefnda efnið segir í skýrslunni:

„Losun frá stóriðju fellur eins og áður segir ekki undir beinar skuldbindingar íslenskra stjórnvalda eins og þær eru núna samkvæmt samningi Íslands og ESB eða í náinni framtíð samkvæmt áformum Íslands og annarra Evrópuríkja innan ramma Parísarsamningsins. Því gæti losun frá stóriðju staðið í stað og jafnvel aukist án þess að það hefði áhrif á möguleika Íslands á að vera innan lagalegra skuldbindinga, svo lengi sem ákvæði reglugerðar ESB um viðskipti með losunarheimildir eru innleidd. Það er þó engu að síður rétt að leita leiða til þess að draga úr losun frá iðnaðarferlum umfram þann fjárhagslega hvata sem er innbyggður í viðskiptakerfið. Erfitt er að setja markmið til skemmri tíma fyrir losun frá stóriðju vegna óvissu um nýja stóriðju, lagalegs umhverfis stóriðjulosunar og mats sérfræðinga á því að lausnir til að draga verulega úr losun frá iðnaðarferlum séu ekki í sjónmáli alveg á næstunni. Slíkar lausnir ættu þó að vera mögulegar (kolefnislaus rafskaut, niðurdæling á CO2) til lengri tíma litið og því mætti setja markmið að stóriðja nái að verða kolefnishlutlaus fyrir miðja þessa öld.“

Það er ekki alveg ljóst hvað átt er við með þessari þvældu málsgrein en ég skil hana þannig að þarna sé á ferð snúið viðfangsefni sem auðveldast sé að skoða í næstu áætlun okkar Íslendinga í umhverfismálum, fyrir árin 2030-2040. Ég skil þessa málsgrein svo að hægt sé að leiða stóriðjuna hjá sér vegna þess að mengun frá henni kemur, strangt til tekið, ekki inn í einhverjar reikniformúlur sem skera úr hvort Íslendingar hafi staðið við sitt samkvæmt Parísarsáttmálanum. Kannski er ég að misskilja eitthvað en mér finnst að hér séu menn og konur að ýta vandanum á undan sér, í veikri von um að Valgerður (dóttir mín) og vísindamennirnir (þar með talið dætur góðra vina minna) hafi ekki á réttu að standa þegar þau segja að svigrómið sem við höfum til aðgerða séu einungis 11 ár, að það sé of seint að bretta upp ermarnar í stóriðjumálunum á Íslandi árið 2030.

Ég byrjaði á því að ræða um hið trúarlega myndmál umhverfisumræðunnar sem ég tel bæði villandi og ófrjótt. Ég stend í þeirri trú að hver og einn einstaklingur eigi að huga að sínum eigin vistsporum og lifa á því sviði, eins og öllum öðrum, samkvæmt lögmálinu: Batnandi manni er best að lifa. En um leið þurfum við að gera okkur skýra grein fyrir að árangur í þessari baráttu veltur á hinum gríðarstóru, erfiðu og óvinsælu ákvörðunum sem stjórnvöld hér á landi, eins og víða annars staðar, reyna ósjálfrátt að slá á frest.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s