„Ég er virk í umhverfisbaráttunni, mér er slétt sama hvort þú flokkar ruslið þitt!“ skrifar Mary Annaise Heglar í umhugsunarverðri grein sem birtist fyrir viku síðan á vefritinu Vox. „Hættu að vera með böggum hildar yfir „syndum“ þínum í umhverfismálum og beindu fremur orkunni að olíu- og gasfyrirtækjunum.“
Hún tekur þarna upp efni sem hefur verið að þvælast fyrir mér síðustu daga og dúkkar í raun upp í hvert skipti sem ég á í samræðum um þetta efni. Sumir segja út í hött að ætla að bjarga heiminum með því að breyta lífsvenjum sínum, aðrir telja að almenn viðhorfsbreyting og lífsstílsbylting þurfi að hefjast hjá hverjum og einum.
Þegar ég deildi greininni hennar Mary á facebook fyrir fáeinum dögum skrifaði einn ágætur vinur minn eftirfarandi viðbrögð: „Ég er efins um að það sé góð taktík að draga úr einstaklingsframtakinu. „Stop obsessing over your environmental “sins.” Fight the oil and gas industry instead.“ – skrítið að stilla því upp eins og þurfi að velja á milli þessa tveggja leiða, ég held einmitt að þeir sem breyti lífsstíl sínum (umfram það að flokka plast) séu þeir sem munu kalla eftir stórum breytingum. Ég hef aftur á móti áhyggjur af því að kolefnisjöfnunin geti orðið hættulegur „stopping point“.“
Ég svaraði því til að Mary setti þetta ekki upp sem annað hvort/eða þótt hún teldi mikilvægast og áhrifaríkast að skrúfa fyrir gas- og olíulindirnar sem næst upptökum þeirra. Ég leyfi mér að vitna beint í grein hennar:
„While we’re busy testing each other’s purity, we let the government and industries — the authors of said devastation — off the hook completely. This overemphasis on individual action shames people for their everyday activities, things they can barely avoid doing because of the fossil fuel-dependent system they were born into. In fact, fossil fuels supply more than 75 percent of the US energy system. If we want to function in society, we have no choice but to participate in that system. To blame us for that is to shame us for our very existence.“
Úrræðin sem Mary boðar er virk þátttaka í mótmælum, róttækur aktívismi og ábyrgt val í kjörklefum: „Ég skelli skuldinni á iðnaðinn sem er hefur kverkatak á okkur og stjórnvöldin sem láta hann komast upp með það.“ Hún vill miklu frekar sjá náungann mæta niður á Austurvöll með mótmælaspjald en hlusta á hann telja upp hve einbeittur sé í að sniðganga nautakjöt og plastumbúðir.
Líklega mætti eyða nokkrum af þessum dýrmætu 3967 dögum sem við höfum til stefnu í að rökræða hvort hefðbundin mótmæli skili meiru en breytt neysluhegðun. En kannski er það enn eitt aukaatriðið, enn einir falskir afarkostir, sem við ættum að passa að flækja okkur ekki í.
Síðustu vikurnar hafa stjórnvöld hér og þar um heiminn verið að taka betur við sér í stefnumörkun á sviði umhverfismála en þau hafa gert um langa hríð þar á undan. Í gær mátti til að mynda lesa í fréttum um algjört bann Kanadastjórnar við einnota plastumbúðu frá og með árinu 2021 (þarna er gengið mun lengra en Alþingi gerði fyrir örfáum vikum með banni á burðarpokum úr plasti eftir tvö ár).
Hver ætli sé ástæðan fyrir þessari ákvörðun stjórnvalda í Kanada?
a) niðurstöður rannsókna vísindamanna á plastmengun sjávar,
b) vaxandi meðvitund kanadísks almenning um neikvæð áhrif notkunar á plasti (þó aðeins rati um 10% af einnota plasti í endurvinnslu þar í landi).
c) föstudagar fyrir framtíðina (vikuleg umhverfismótmæli kanadískra skólabarna sem hófust í desember á liðnu ári)
d) áhyggjur stjórnmálamanna af næstu kosningum
e) allt þetta fernt og margt annað að auki?
Og nú er spurningin þessi: Hvernig getum við þrýst á íslensk stjórnvöld um að draga ekki lappirnar í umhverfismálum?