37 (3963 eftir)

Eldmóðurinn sem fyllti mig fyrstu vikurnar sem ég færði þessa dagbók hefur verið að dvína; í raun er ég búinn að vera einum til tveimur dögum á eftir áætlun í rúma viku og er af einhverjum ástæðum lengur en áður að klambra saman færslu dagsins. Ég kenni um góða veðrinu, sem hefur leikið við okkur í Reykjavík allan þennan mánuð, og reyni að ýta frá grunsemdum um að það sé ein af óteljandi afleiðingum hækkandi meðalhita jarðar.

En kannski er hin raunverulega ástæða fyrir andleysinu sú að mér finnst ég vera að hjakka í sama farinu. Umræða um umhverfismál er svolítið eins og villugjarnt og illa upplýst völunarhús sem engin leið er að rata út úr. Villuráfandi sauðurinn fær fljótlega á tilfinninguna að hann sé að þreifa sig áfram eftir myrkum gangi sem hann er nýbúinn að leggja að baki. Og það er svo sannarlega áskorun að fara nýjar (svo ekki sé talað um skemmtilegar) leiðir í umræðunni; að verða ekki síðskeggjaður hrópandi í eyðimörkinni (inni í völunarhúsinu) með blóðhlaupin augu og skjálftakippi í andlitinu.

Oftast reyni ég að fá einhverja góða hugmynd fyrir pistil næsta dags í þann mund sem ég fer að sofa. Í gærkvöldi lét sú hugmynd á sér standa; það skásta sem mér datt í hug var að skrifa hugleiðingum um avókadóin tvö sem ég keypti fyrir fáeinum dögum í hverfisbúðinni. Þau voru í brúnum plastbakka og var hvorutveggja pakkað inn í gegnsætt plast með límmiða utan á.

Ég var svolítið syfjaður en ég reyndi samt að sjá fyrir mér allt ferlið, frá því að avókadóplantan var gróðursett í Rómönsku Ameríku, frá því að olíunni eða jarðgasinu sem var dælt upp í Norður Ameríku til þess að fullbúin varan (avókadó og plast) var lögð í ávaxtaborðið í hverfisbúðinni. (Ég hljóp yfir ferðir flutningabíla og flugvéla.) Og svo reyndi ég að sjá framhaldið fyrir mér, frá því að ég skar upp annað avokadóið og smurði á tvær brauðsneiðar til þess að plastið sem ég ber út í plastgáminn hér á Skólavörðuhæðinni verður endurnýtt í einhverja aðra vöru úr plasti eða flíspeysu.

Ég sofnaði áður en ég náði að sjá fyrir mér hvað yrði um þessa endurnýttu vöru en fyrsta hugsun mín í morgun var sú að ég þyrfti endilega að fá mér þessar avókadóbrauðsneiðar í hádegismat. Það hafði nefnilega rifjast upp fyrir mér í svefnrofanum að ræktun á einni avókadóperu útheimtir 150-300 hundrað lítra af vatni.

Svo fór að ég borðaði fiskafganga í hádegismat. Avókadóperurnar tvær bíða morgundagsins. Það væri synd ef þær færu í súginn, eftir á allt sem á undan er gengið, og allt sem framundan er.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s