Það er vonum síðar að ég tek upp þráðinn í þessari umhverfisdagbók, 40 daga sumarleyfið dróst aðeins á langinn, og því eru liðin ríflega 2% þess tíma sem mannkynið hefur að sögn vísindamanna (og Valgerðar Birnu dóttur minnar) til að bjarga jörðinni frá því að ofhitna. Í millitíðinni hefur Karl Bretaprins reyndar vakið athygli á því að næstu átján mánuðir ráði úrslitum í þessu efni; þær ákvarðanir sem muni skipta sköpum þurfi að taka í nánustu framtíð. Þá hafa geigvænlegar fréttir af þiðnun túndrunnar og skógareldum á norðlægum slóðum heimsins, sem og hitatölur um allan heim, ekki verið til þess fallnar að auka bjartsýni þeirra sem láta sig framtíð lífríkisins varða. Bráðnun Grænlandsjökuls er margföld á við það sem svartsýnustu spár höfðu gert ráð fyrir. Hér á landi hafa ýmis hitamet fallið, sem og annarsstaðar, en sérstaka athygli mína hafa hitatölur á hálendinu vakið síðustu daga.
Jákvæðustu fréttirnar sem ég hef rekist á þessar síðustu vikur snúast um iðni einstakra þjóða í skógrækt, sem eru í mörgum tilvikum hluti af átaksverkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna. (Þessar fréttir hafa vegið örlítið upp á móti ítrekaðum fréttum af hraðri gróðureyðingu Amazon svæðisins í Brasilíu.) Á síðustu misserum hafa ólík svæði á Indlandi verið að reyna að bæta heimsmetið í gróðursetningu trjá en keppnin þeirra á milli hófst í kjölfar stefnumarkandi ákvörðunar stjórnvalda um að „gera Indland grænt að nýju“ (sem hljómar mun betur en hið útjaskaða slagorð Bandaríkjaforseta „Make America Great Again“). Fyrir fáeinum dögum settu Eþíópíumenn og -konur (að sögn yfirvalda) svo nýtt heimsmet þegar yfir 350 milljón tré voru gróðursett á aðeins 12 tímum.
Nú eru reyndar deildar meiningar um það hve áhrifarík og góð leið trjárækt er til að vega upp á móti kolefnisútblæstri okkar mannanna. Best er auðvitað að koma algjörlega í veg fyrir útblástur gróðurhúsalofttegunda. Það er engu að síður ljóst að skógrækt og endurheimt votlendis séu meðal þeirra mörgu lóða sem við þurfum að leggja þarna á vogarskálina. Mér dettur því í hug að spyrja: Hvað geta íslenskir sjálboðaliðar gróðursett mörg tré á sólríkum miðvikudegi næsta vor, 22. apríl (sem er raunar Dagur jarðarinnar)? Eigum við að setja okkur það takmark að gróðursetja eina milljón trjáa? Eða ættum við kannski að stefna á eþíópíska heimsmetið?