94 (3906 eftir)

Fyrir fáeinum dögum vakti ég athygli á því keppnisskapi sem verið er að blása í brjóst einstakra þjóða á sviði skógræktar. Ég nefndi stór skógræktarverkefni sem skipulögð hafa verið í Eþíópíu og á Indlandi og vildi eggja íslensku þjóðina til afreka á þessu sviði. Við Íslendingar erum miklir keppnismenn þegar kemur að alþjóðlegum samanburði, eins og Norræna sundkeppnin er skýrt (en þó svolítið gamalt) dæmi um. Hún var fyrst haldin 1949 (þá sigruðu Finnar) en í næsta sinn 1951. Þá tóku Íslendingar þátt og sigruðu með glæsibrag. Næstu árin (keppnin var um hríð á 3 ára fresti) gekk okkur síður og kenndum um einkennilegum reiknireglum en þegar þeim var breytt, 1972, sigraði íslenska þjóðin á nýjan leik.

En það þarf að huga að æði mörgum atriðum ef ætlunin er að fá Íslendinga til að vinna sem þjóð afrek á sviði skógræktar. Hér eru nokkur atriði:

a) Tryggja þarf nægjanlegt magn af plöntum til gróðursetningar (þetta er kostnaðarsamt fyrirtæki en byggir líka á löngum undirbúningi)

b) Velja þarf tíma þegar aðstæður eru ákjósanlegar (rigning og rok geta auðveldlega sett strik í reikninginn)

c) Finna þarf ræktarland sem hentar, helst á öllum landshornum.

d) Síðast en ekki síst þarf að blása þúsundum einstaklinga réttum anda í brjóst (erum við að græða landið, afmá kolefnispor okkar, eða skjóta öðrum þjóðum rebba fyrir rass?)

En það er hægt að líta til hinna erlendu stórverkefna til að fá innblástur. Hér fyrir neðan má sjá myndband sem notað er til að hvetja almenning til að leggja skógrækt í Costa Rica lið (takið eftir setningunni „we love to do the dirty-work“). Söfnunarsíða verkefnisins er hluti af vef GlobalGiving sem líkja má við menningarsöfnunarsíðuna Karolina Fund (takið eftir áskorununum fyrir neðan myndbandið).

Daginn eftir að ég birti umrædda færslu las ég frétt í Morgunblaðinu sem snerist um stórátak Skógræktarfélaganna í Reykjavík og Mosfellsbæ; markmiðið er að klæða Mosfellsheiðina svonefndum Loftlagsskógi. Þetta verkefni var fyrst kynnt á liðnu ári, það ég best veit, þegar bæjarráð Mosfellsbæjar tók það til afgreiðslu, en undirbúningur hefur hvílt á herðum Björns Traustasonar, formanns Skógræktarfélagsins þar. Heyra mátti gott viðtal við hann í Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 fyrr í þessari viku.

Þetta eru metnaðarfull og spennandi áform, spor í rétta átt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s