Ég tók mitt stærsta kolefnisspor á árinu á mánudaginn, flaug frá Reykjavík til Vancourver í Kanada. Kolefnisreiknivélin hjá Kolvið telur að ég hafi losað um 0,7 tonn af kolefni í þeirri ferð og þurfi því að gróðursetja sjö tré sem geti á næstu 60 árum bundið þetta kolefni aftur. Þegar ég flýg aftur heim undir lok ársins losa ég svo annað eins. Næsta vor má ég til með að gróðursetja lund með fimmtán trjám til að vega upp á móti þessu flakki.
Undirbúningur og eftirköst ferðar hafa fyllt hugann og dagbókarskrif því setið á hakanum en meðal þess sem ég hef haft á stefnuskránni að fjalla um eru skógareldarnir í Amazon sem heimsbyggðinn öll hefur verulegar áhyggjur af. Í umræðunni er oft vísað til þess að Amazon svæðið sé lungu heimsins. Gjarnan er rætt um að 20% af súrefnisframleiðslu heimsins eigi sér stað á þessu svæði en samkvæmt nýlegri grein á vefsvæði The Atlantic er sú tala líklega ýkt; 6% ku vera nær lagi. Og þar er líka bent á að skógurinn losi líklega jafnmikið af kolefni, þ.e. svo lengi sem hann brennur ekki upp á methraða.
Á meðan ég skrifa þessi orð velti ég fyrir mér hvers vegna loftið sem við öndum að okkur er kallað súr-efni. Vísindavefurinn upplýsir okkur um að alþjóðaheitið Oxys merki ‘súr’, og genan merki ‘að mynda’ og vísar oxygen því til þess „að súrefni er efni sem myndar sýrur.“ Nákvæm íslensk þýðing væri því líklega sýrumyndandi efni.
Í þessu sambandi er líka ástæða til að benda á (líkt og einhver vísindamaðurinn gerði í viðtali á Rás 1 á dögunum) að það eru öfugmæli að kalla Amazon „lungu jarðar“. Á meðan lungu okkar koma súrefni áleiðis inn í blóðrásina og losa hana við koltvíoxíð stunda plöntur þveröfuga iðju. Þær binda koltvíoxíð úr andrúmsloftinu (nota það til að mynda sykur). Vísindavefurinn útskýrir framhaldið á þessa lund: „Um leið er vatnssameind (H2O) klofin í frumum til að halda uppi ljóstillífun og afleiðing þess er sú að súrefni (O2) losnar. “ Lungu okkar dýranna og Amazon eru því í raun jing og jang í hinu flókna, gagnkvæma sigurverki lífsins.
Þessum hugleiðingum er ekki ætlað að draga úr áhyggjum okkar af geigvænlegum skógarbrununum í Suður-Ameríku, sem eru af mannavöldum. Það er ástæða til hafa þungar áhyggjur. Og eldarnir sjálfir eru í raun bara einn dómínókubbur af afar mörgum sem fallið hafa hver á fætur öðrum og eiga eftir að hafa margvíslegar afleiðingar á næstu dögum, vikum, mánuðum og árum, ekki bara á loftslag jarðar heldur einnig þúsundir dýrategunda, og svo að sjálfsögðu frumbyggja Amazon skógarins.
Sky fréttaveitan birti í byrjun mánaðarins 11 mínútna fréttaskýringu sem varpar ljósi á hluta þess margbrotna veruleika sem leynist bakvið svartan reykinn sem stígur upp víðsvegar upp í Brasilíu þessa dagana. „Heimurinn þarf á Amazon að halda,“ segir í niðurlagi fréttarinnar, „en Amazon þarfnast líka heimsins.“