112 (3888 eftir)

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur birti nýlega á fésbók sex ráð handa fólki sem vill taka spor í rétta átt í loftlagsmálum. Tilefnið var umfjöllun um skólafæði og kolefnislosun. Listinn rataði fljótlega í fjölmiðla og var greinilegt að Einar væri einkum að ávarpa ungu kynslóðina. Svona líta boðorðin sex út í stuttri og svolítið stílfærði útgáfu.

Börn og unglingar ættu …

  1. … að banna foreldrum sínum að skutla þeim í skóla og frístundir en ganga, hjóla eða taka strætó þess í stað.
  2. … að ganga sem lengst í sömu lörfunum (þó þeir standi þeim á beini), kaupa notaðar flíkur og sætta sig við gamla snjallsíma og græjur.
  3. … að hætta að drekka bragðbætt innflutt vatn.
  4. … að fljúga ekki oftar en einu sinni á ári til útlanda.
  5. … að venja sig af matvendni og hætta að leifa ruslfæði.
  6. … að planta trjám í frístundum.

Vinir og kunningjar Einar hafa tekið þessum tillögum fagnandi en enginn þeirra, sýnist mér, hefur haft orð á því að þarna eru fullorðnir, enn og aftur, að gera enn ríkari kröfur til barna og unglinga gagnvart loftlagsvánni en sjálfra sín. Ef við myndum heimfæra listann yfir á fullorðna myndi boðorð þrjú líklega fela í sér hvatningu til okkar um að drekka ekki innfluttan bjór, vín eða áfengi. Eða hvað?

Það má líta á þetta mál frá öðrum sjónarhóli. Ég tel að við eldra fólkið séum í raun búin með okkar prívatkolefniskvóta. Okkur ber því ennþá ríkari skylda til að halda í við okkur í neyslu og flakki en þau sem yngri eru. Sjálfur hef ég ferðast um margar heimsins koppagrundir síðustu hálfa öld, þannig hef ég kynnst ólíkum menningarheimum og á enga sérstaka heimtingu á að gera það áfram, næstu hálfa öld. Þegar kemur að flugferðum finnst mér að unga fólkið eigi ótvírætt „réttinn“, ef svo má að orði komast.

Við verðum að átta okkur á að takmarkanir þær sem veðurfræðingurinn leggur til að börn og unglingar setji á eigin ferðalög og neyslu eru afleiðing af bægslagangi okkar sem eldri erum. Staðreyndin er vissulega sú að barnabörnin okkar þurfa að stíga mun varlegar til jarðar en við höfum gert síðustu áratugi. Misvægið sem þarna er að skapast er hægt að reikna út á vef Carbon Brief. Raunin er líka sú að kolefnissporum einstaklinga fjölgar jafnt og þétt til rúmlega sextugs (eftir það fer þeim eitthvað fækkandi). Einar vill gera þá kúrfu sem hérna birtist ennþá brattari á vinstri vængnum; ég tel brýnna að skera ofan af henni efsta kúfinn.

Og svo hefur Bill Gates þriðja sjónarhornið á þetta efni. Hann hvetur okkur öll til að brjóta heilann, nota hugmyndaflugið til að finna nýjar lausnir á öllum þessum krefjandi verkefnum sem jörðin stendur frammi fyrir.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s