Síðasta dagbókarfærsla vakti óvenjumikil viðbrögð í bergmálshelli samfélagsmiðla; nafni minn einn deildi henni á fésbók og sýndist sitt hverjum. Einn af vinum hans gerði eftirfarandi athugasemd: „Hálf tregafullt að flagga Bill (Gates) í þessu samhengi … hvað ætli kolefnisspor hans sé, auðugasta manns heims?“ Þetta er gild athugasemd; samkvæmt rannsókn sem unnin var af nemendum MIT má gera ráð fyrir að Bill og aðrir moldríkir Bandaríkjamenn skilji eftir sig tíuþúsundsinnum fleiri kolefnisspor en meðal-Jóninn.
Til viðbótar má nefna að rafmagnið sem drífur áfram gjörvallan hinn stafræna heim er í mörgum tilvikum framleitt með óvistvænum aðferðum. Því má halda því fram að Bill Gates (ásamt fjölda annarra sem staðið hafa í fararbroddi tölvuþróunar síðustu áratuga) beri sína ábyrgð á þeirri gríðarlegu kolefnislosun sem öll okkar rafknúnu snjalltæki, stór og smá, valda dag hvern. Fyrir réttu ári síðan mátti lesa grein í breska dagblaðinu Guardian þar sem vitnað var í bók eftir James Bridle sem ræddi um japanska skýrslu sem kvað á um að kolefnislosun vegna stafrænna samskipta myndi brátt verða meiri en kolefnislosun í gjörvöllum flugflota heimsins. Og við er enn ekkert farin að tala um þá miklu umhverfisvá (m.a. blýmengun) sem felst í urðun á allskonar tækjum sem verða úrelt fáum mánuðum eftir að við kaupum þau.
En það hljóta að vera einhverjir kostir við hina stafrænu tækni. Getum við ekki þakkað Bill og kollegum hans fyrir þá miklu samþjöppun sem er að verða í tækjabúnaði hvers heimilis hér á Vesturlöndum? Sími, útvarp, hljómtæki, vekjaraklukka, etc., eru öll komin í eina sæng. Og er tölvutæknin ekki einnig kjörin til að draga úr flugferðum og bílaumferð?
Meðal þess sem töluvert er rætt um hér í kringum mig þessi misserin eru svonefnd samstarfsrými (e. co-working spaces) sem gefa fólki tækifæri til að vinna í grennd við heimili sitt í gegnum fartölvu en tilheyra engu að síður skapandi vinnustað. Ég kynntist afbrigði af þessu fyrirbæri í kringum síðustu aldamót innan ReykjavíkurAkademíunnar. Áhugi minn á samstarfrýmum endurnýjaðist svo fyrir fáeinum vikum þegar bróðir minn og sonur hans fóru að deila saman skrifstofu uppi á Höfða, mitt á milli heimila sinna. Bróðir minn þjónustar bókhaldskerfi sem fyrirtæki víða um land nota, sonur hans vinnur hjá dönsku tölvuleikjafyrirtæki. Og samt eru þeir vinnufélagar. Það er reyndar ekki alveg jafnfjörugt hjá þeim uppi á Höfða og í samstarfsrýminu í Boston sem hér er kynnt, en þeir láta samt báðir afar vel af þessu nýja fyrirkomulagi.
Er framtíðin kannski sú að samstarfsrýni séu í öllum íbúðarhverfum, og að þau verði ekki aðeins nýtt af einyrkjum heldur einnig stórfyrirtækjum sem telja óþarfi að allir starfsmenn séu staðsettir í einu og sama húsinu? Mun það heyra til undantekninga að fólk sem sinnir vinnu sinni í gegnum tölvu þurfi að keyra langar leiðir til vinnu?
Eða er kannski einfaldara að stytta vinnuvikuna í fjóra daga, eins og annar greinarhöfundur The Guardian lagði til nú í sumar?