125 (3875 eftir)

Vikunni minni, sem hófst á lestri á fremur kaldranalegu viðtali við Nell Zink í The Guradian, lauk á lestri á enn kaldranalegri grein í The New Yorker eftir annan bandarískan samtímahöfund, Jonathan Franzen. Titillinn gaf tóninn: „Hvað ef við myndum hætta þessum látalátum“ (What if We Stopped Pretending?). Hamfarahlýnun af manna völdum er óumflýjanleg, segir Franzen; lífsskilyrðin á jörðinni munu versna stig af stigi á næstu árum og áratugum og samt látum við eins og það sé ekki of seint að snúa taflinu við. Vandamálin og lausnirnar hafa legið ljós fyrir í þrjátíu ár en ástandið einfaldlega versnað.

Við sem erum undir sextugu munum líklega verða vitni að alvarlegum uppskerubrestum, gríðarlegum skógareldum, efnahagsþrengingum, Nóaflóðum, og straumi milljóna flóttamanna frá svæðum sem hækkandi lofthiti og þurrkar hafa gert óbyggileg. Þau sem enn ekki hafa náð þrítugsaldri munu alveg örugglega þurfa að horfast í auga við þann grimma veruleika. Og hvað er til ráða? spyr Franzen. Stærsta skrefið, samkvæmt honum, er að horfast í augu við væntanlegar breytingar (sem verða skjótari og afdrifaríkari en verstu spár hafa gert ráð fyrir) og búa okkur undir þær. Hér eru fáein atriði sem hann segir að séu ofarlega á tossalistanum.

a) Við þurfum að taka höndum saman, þvert á raunverulegu og hugmyndafræðilegu landamærin sem aðskilja núna þjóðir, stéttir, trúarbrögð og kynþætti.

b) Við þurfum að halda áfram (byrja?) að berjast gegn vaxandi útblæstri gróðurhúsalofttegunda, útrýmingu dýrategunda og mengun og vera reiðubúin að kosta miklu til í því skyni.

c) Við, sem njótum svonefndar vestrænna lífsgæða, þurfum að fórna þeim, til að bæta hag þeirra þjóða sem er nú þegar ógnað og til að bæta, eftir megni, hag yngri kynslóða.

d) Við þurfum að horfast í augu við að það er ekki nóg (nú vitna ég í annan höfund) „að hrópa upp, sjáðu mig, ég gagnrýni umhverfissóða, ég borða lítið kjöt, ég flýg svolítið sjaldnar (eða þannig) og fer stundum í strætó“. Mun róttækari aðgerða er þörf ef við ætlum okkur að bjarga siðmenningunni í þeim hamförum sem bíða okkar. (Og nú vitna ég beint í Franzen): „Á tímum þegar óreiða eykst, treystir fólk í vaxandi mæli á ættbálkinn og vopnin, fremur en að treysta á ramma laganna, og besta vörn okkar gangvart slíkri dystópiu er að treysta lýðræðið og muna að með lögum skal lönd byggja. Í þessu sambandi eru öll þau skref sem við tökum í átt til þess að móta réttlátt, síðað samfélag spor í rétta átt í umhverfismálum.“

Franzen segir ýmislegt fleira í þessari grein og hún hefur, satt best að segja, vakið afar mikil og hörð viðbrögð meðal þeirra mörgu sem eru á öðru máli. Á vef Scientific America (sem Franzen vitnar til máli sínu til stuðnings) birtist til að mynda grein eftir Kate Marvel með fyrirsögninni „Haltu kjafti, Franzen“ (Shut up, Franzen). Hún hefst á þeirri fullyrðingu að við séum ekki fordæmd, sama hvað Franzen segir. Marvel er sérfróð um umhverfismál og starfar við Columbia-háskólann í New York; „ég er vísindamaður,“ skrifar hún meðal annars, „þess vegna trúi ég á kraftaverk“.

Önnur áhrifarík rödd sem talað hefur um umhverfismál hér vestanhafs í vikunni er Greta Thunberg. Hún er hér fyrir neðan í samtali við Naomi Klein sem var að leggja lokahönd á nýja bók um umhverfismál. Báðar leggja þær Greta áherslu á að heimurinn sé á vonarvöl, í rauninni eins og brennandi hús. „Ég er ekki óvinurinn,“ segir Greta, „ég vona að minnsta kosti að svo sé ekki, en margir telja að svo sé. … Ef ég segi að það sé brennandi eldur og eldurinn er þarna í raun og veru, þá þurfum við að slökkva hann. En í stað þess að horfa á eldinn lítur fólk á mig og segir: Hvað er að sjá útganginn á þér?“

m

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s