162 (3838 eftir)

Klukkan tifar, ríflega fimm og hálfur mánuður er nú liðinn frá því að ég ritaði fyrstu dagbókarfærsluna og því eru að baki meira 4% þess tíma sem mannkynið hafði í vor til umráða til að sporna við hlýnun jarðarinnar.

Hefur okkur miðað áfram? Ég hef ekki hugmynd um það en mig grunar að útblástur gróðurhúsalofttegunda hafi haldið áfram að vaxa á sama hraða síðustu misseri og undanfarin sjötíu til áttatíu ár.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að vitund almennings um alvarleika ástandsins virðist vera vaxandi. Niðurstöður kosninganna hér í Kanada í gærkvöldi báru örlítinn keim af því, Græningjar nærri tvöfölduðu fylgi sitt upp í 6,5%, en þó eru fulltrúar þeirra ekki nema þrír af 338 þingmönnum í Ottawa næsta kjörtímabil. Tvo fulltrúa fékk flokkurinn kosna hér á vesturströndinni, þeirra á meðal var formaður flokksins sem fékk flest atkvæði í kjördæminu Saanich-Gulf Islands þar sem ég bý.

Önnur og jafnvel enn athyglisverðari vísbending um vaxandi vitund almennings um orsakir og áhrif loftslagsbreytinga eru nokkrar færslur sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson birti á facebókarsíðu sinni fyrr í mánuðinum. Tilefnið var það að Fréttablaðið hafði birt teikningu Gunnars Karlssonar af Hannesi þar sem hann stóð sigri hrósandi á ruslahaugi úti í reginhafi (væntanlega vísun til þess að bráðnun jökla hefur í för með sér hækkandi yfirborð sjávar).

Hannesi Hólmsteini þótti hér ómaklega að sér vegið, „óbreyttum opinberum starfsmanni sem aldrei hefur losað neinn koltvísýring í andrúmsloftið, það heitið geti“. Hann taldi nær að skopteiknarar birtu myndir sem sýndu hve miklir umhverfissóðar eigendur Fréttablaðsins væru: „En hvað skyldi einkaþota þeirra Ingibjargar og Jóns Ásgeirs hafa skilið eftir sig mörg kolefnisspor? Eða lystisnekkjan? Eða glæsikerrurnar?“ spurði hann meðal annars og birti í framhaldi allmargar ljósmyndir af umræddum farartækjum.

Þó svo að þetta tiltæki Hannesar Hólmsteins hafi vakið nokkra athygli — ekki síður en örgandi ummæli hans um hirðuleysi komandi kynslóða í okkar garð, sem komu þessu öllu af stað — þá held ég að enginn hafi áttað sig almennilega á því að þarna stígur hann líklega í fyrsta sinn fram sem einbeittur og áhrifaríkur gagnrýnandi þeirra sem bera meiri ábyrgð en aðrir á vaxandi kolefnisútblæstri.

Skop hans beinist reyndar einkum að sigursælum kapítalistum, þ.e. auðmönnum og -konum sem fljúga milli landa í einkaþotum eða aka um vegi og sigla um höfinn, sér til gamans og jörðinni til bölvunar. Tíðindin eru þau að Hannes viðurkennir í raun að það er samband milli vaxandi kolefnisútblásturs og hækkandi meðalhita jarðarinnar. Þetta er vissulega spor í rétta átt, en hefur um leið í för með sér nýja vígstöðu í argaþrasinu. Nú virðast skilaboð stjórnmálafræðingsins þau að komandi kynslóðir eigi hreinlega ekkert betra skilið en þær breytingar sem vaxandi meðalhiti á jörðinni hefur í för með sér.

Það er freistandi að fordæma þessi sjónarmið en svo lengi sem við hin grípum ekki til raunhæfra og róttækra aðgerða erum við einfaldlega að taka undir þau.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s