Á hinni svokölluðu þekkingarrás (Knowledge Network) í sjónvarpinu mínu hér í Bresku Kólimbíu var sýnd í kvöld liðlega 50 mínútna kanadísk heimildamynd um þau áhrif sem bráðnun jökla er líkleg til að hafa á landið okkar litla, Ísland, sem mun vart standa undir nafni eftir 200-250 ár.
Það var viðeigandi, þegar ég fann rétt áðan myndina á netinu (hún er orðin ársgömul a.m.k.), að sýning hennar þar hófst á auglýsingu fyrir nýjustu kvikmyndina um Tortímandann (The Terminator). Skilaboð kvikmyndagerðarmannanna kanadísku voru nefnilega þau að bráðnun jöklanna myndi létta oki sínu af virkustu eldstöðvum landsins, framkalla eldgos, valda vatnsskorti og skilja virkjanirnar okkar eftir, eins og fiska á þurru landi. Heimildamyndin virkaði eins og dramatískur dauðadómur og er í raun helst af öllu til þess fallinn að fæla ferðamenn frá því að nálgast þessa hrikalegu tímasprengju sem þar er lýst. Því þótt tímaramminn væru aldir og áratugir þá voru skilaboð hins dramatíska sögumanns og tónlistarinnar sem leikin var undir að landið okkar litla, Ísland, væri nú þegar á allra síðasta snúningi.
Og er sú kannski raunin?
Ég hvet ykkur til að horfa á myndina alla, þó hún sé full einhæf og dramatísk. Og ef ykkur finnast skilaboð hennar niðurdrepandi þá er framburður sögumannsins á íslensku örnefnunum kærkominn léttir („comic relief“). Og vekur auðvitað upp spurningar um hve mörg þeirra stórkostlegu náttúrufyrirbæra sem þar um ræðir standi undir nafni þegar fram liðu stundir.