Það líður stöðugt lengri tími milli pistla minna um umhverfismál og ástæðan er ekki sú að það sé eitthvað minni ástæða en áður til að ræða um um jörðina okkar og þau áhrif sem lífshættir okkar mannfólksins hafa á vistkerfið, þar á meðal hitastig, bráðnun jökla, dýr og jurtir, Raunin er sú að því meira sem ég les og hugsa um efnið þeim mun þögulli verð ég.
Um daginn sá ég þýsku kvikmyndina Gundermann sem fjallar um þekktan austur-þýskan tónlistarmann, Gerhard Gundermann, sem reyndist hafa verið á mála hjá Stasi áður en Múrinn féll. Þessi maður var greinilega besta skinn en um leið afar mótsagnakenndur; hann lét sér annt um dýr, stóð upp í hárinu á kommúnistaflokknum vegna sterkrar réttlætiskenndar, en baktalaði samhliða vini sína í þeim skýrslum sem hann gaf öryggislögreglunni. Eftir samruna Austur- og Vestur-Þýskalands neyddist hann til að horfast í augu við hina myrku fortíð sína en það kom honum, að því er virtist, jafnmikið á óvart og öðrum að lesa Stasiskýrsluna um sig.
Með einhverjum undurfurðulegum hætti fékk þessi mynd mig til að spyrja: Hvernig mun okkur verða við þegar við neyðust til að horfast í augu við hvernig lífshættir okkar, ekki síst okkar sem búum á Vesturlöndum, eru að spilla gjörvöllu vistkerfinu? Hvenær mun vitneskjan um efnið í raun og veru hafa áhrif á gjörðir okkar og lífshætti.
Ég er í bili mest hissa á sjálfum mér. Annars vegar hef ég lofað sjálfum mér að fljúga ekki til útlanda oftar en einu sinni á ári. Hins vegar hvet ég (svolítið eins ég sé gömul plata eða á valdi utanaðkomandi sjálfstýringar) alla þá mörgu sem ég hitti hér í Kanada og áhuga hafa á Íslandi að kíkja í heimsókn til landsins bláa (ráðstefna með þátttöku íslenskra og kanadískra fræðimanna hefur verið rædd, einnig mögulegar kóraheimsóknir). Og ég tek líklega í það þegar fólk spyr hvort ég komi ekki örugglega fljótt aftur.
Er skýringin sú að það sé erfitt að kenna gömlum hundi að sitja, meira segja þegar reyndir sjálfur að setjast í kennarastólinn?