217 (3783 eftir)

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, birtir grein í Fréttablaði dagsins um hina svonefndu „Grænáætlun“ (Green Deal) sem hefur það markmið að gera Evrópu að fyrstu „loftlagshlutlausu“ heimsálfu veraldar fyrir árið 2050 (31 ár þangað til).

Meðan ég las greinina hennar Ursulu yfir morgunkaffinu hlustaði ég á útvarpsfréttir. Þar kom fram að reiknað er með tvöföldun flugfarþega í heiminum fram til ársins 2040 (21 ár þangað til). Þeir eru nú 4,5 milljarðar en verða, ef fer sem horfir, 9 milljarðar á 75 ára afmælinu mínu.

Hvergi í grein sinni ræðir Ursula beinlínis um flugumferð en hún segir þó að Evrópusambandið hyggist „bæði minnka útblástur, búa til ný störf og bæta lífsgæði okkar“ (hljómar þetta svolítið eins og „giftur piparsveinn“?) og segir að græni þráðurinn muni ná til bæði ferðamála og samgöngumála. Seinna bendir hún á að ungir sem aldnir Evrópubúar séu í auknum mæli farnir að „hjóla til dæmis og taka strætó“.

Hér má sjá snarpa umræðu um þetta snúna verkefni.

Það væri forvitnilegt að vita hvað Evrópusamstarfið sjálft hefur í för með sér margar flugferðir á ári hverju (og þá er ég ekki að ræða um milliríkjaviðskiptin sem það snýst um). Stjórnmálamenn og búrókratar eru á stöðugum þeytingi til og frá Brussel, óteljandi evrópskir nemendur af ólíkum skólastigum heimsækja jafnaldra sína í öðrum löndum álfunnar, heilu og hálfu starfstéttirnar fara í kynnisferðir þvert yfir landamæri. Í einhverjum tilvikum er hægt að nýta sér lestarkerfi en mig grunar að mikill meirihluti þessara ferða séu flugferðir.

Sjálfur er ég þessa dagana að gera upp við mig hvort ég eigi að sækja um í hina svonefndu Erasmus+ áætlun sem ýtir undir ferðir skólafólks frá Evrópu til landa utan ESB. Þessi áætlun komst í fréttir í vor þegar einhver áttaði sig á þeirri mótsögn að sérstakt „grænt Erasmus+ verkefni“, C.L.E.A.N. eða Community League for Environmental Action Network, snerist að nokkru leyti um að kaupa flugmiða undir ungmenni milli Spánar, Bretlands, Hollands, Ítalíu, Tyrklands og Þýskalands. Einn unglingur sem tók þátt í verkefninu sló reyndar hnefa í borðið og neitaði að fljúga milli landa.

Þess má geta að einkennissöngur C.L.E.A.N. verkefnsins er svohljóðandi: “ If you want to see a clear blue sky / leave your car behind and ride a bike / If you want to breathe the fresh cool air / all you need is trees growing everywhere.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s