Ég var að lesa viðtal við bandarísku skáldkonuna Nell Zink á vef The Guardian um daginn. Við erum svo að segja jafngömul, hún er fædd árið 1964 og hefur sent frá sér fimm skáldsögur á jafnmörgum árum (fyrstu tvær segist hún hafa skrifað á þremur vikum), eftir að hafa fram að því skrifað sögurnar sínar fyrir stakan pennavin.
Tilefni viðtalsins var nýjasta sagan hennar, Doxology, sem kom út fyrr á þessu ári (og tók lengri tíma í vinnslu) en það sem vakti forvitni mína var fyrirsögnin, „Stjórnmálamenn eiga eftir að ljúga að Gretu Thunberg“. Hún gaf til kynna að Nell ræddi í viðtalinu um umhverfismál, jafnvel að þessi nýja saga fjallaði um það efni, en raunin var sú að það var rétt í blálokin sem þetta efni bar á góma. Meðal persóna í þessari nýju sögu Nell er ung kona, Flora að nafni, sem tekur þátt í kosningabaráttu græningja í Bandaríkjunum árið 2016. Og um hana hefur skáldkonan þetta að segja:
“Floru hefur hug á að breyta heiminum en hvernig breytir maður heiminum? Mannkynið telur sjö milljarði manna, getur einhver breytt heiminum? Og svo eru dæmi þess að það skjóti upp kollinum hræðilegir einstaklingar sem geta breytt heiminum á versta veg. Kannski getur einstaklingur valdið neikvæðum breytingum. Að byggja eitthvað upp kallar á að allt vistkerfið taki höndum saman og gangi í takt. En það þarf bara eina byssukúlu til að splundra einhverju.“
Í framhaldi af þessum hugleiðingum víkur Nell talinu að Gretu Thunberg, sem lagði af stað í siglingu sína til Vesturheims um miðjan ágúst, var komin á leiðarenda í lok ágúst (um það leyti sem viðtalið við Nell birtist) og hefur síðustu 10 daga verið að miðla boðskap sínum í New York (þar sem Neill býr). En skáldkonan bandaríska er ekki bjartsýn fyrir hönd sænsku unglingsstúlkunnar:
„Það að henni hafi tekist að fá ungt fólk til að skrópa í skólanum er sannarlega … undravert,“ viðurkenni Neill, en bætir við: „Þetta er svo mikill helvítis della! Ég veit ekki hvaða logandi bröndum Greta Thunberg þarf að sveifla í kringum sig til að fá ekki viðbrögð sem eru eitthvað annað en helvítis della. … Merkel talaði um umhverfismál út í eitt. Og ekkert gerðist. Hún vann markvisst gegn sínum eigin loforðum. Þetta voru lygar. Þau ljúga. Þau munu ljúga að Gretu Thunberg. … Spurningin er þessi: hve reið mun Greta Thuberg verða og munu þau enn taka hana alvarlega eftir að reiðin blossar upp í henni. Núna er hún barnungur hermaður úr japanskri teiknimynd. Hún er eins og klippt út úr mynd eftir Miyazaki. En hvernig verður hún þegar hún er orðin tvítug, þegar við verðum kominn í 500 hluta af milljón?“ (hér er Neill að ræða um styrk CO2 í andrúmsloftinu).
Þetta er umhugsunarverð spurning, bæði óvenjuleg og miskunnarlaus.
Í umræðum um loftlagsbreytingar eru flestir að velta fyrir sér hvaða áhrif aukin kolefnismengun mun hafa á vistkerfið (jökla, jurtir, dýrategundir og líf mannkynsins). Nell beinir athyglinni hins vegar að einum einstaklingi, sextán ára stúlku sem hefur helgað lífs sitt og krafta baráttunni gegn óumflýjanlegri hamfarahlýnun, en er þó um leið fulltrúi milljóna annarra barna og unglinga sem hafa áhyggjur af framtíðinni. Í hvaða sálrænu sporum verða hún og jafnaldarar hennar eftir fjögur ár? Eftir 1400 daga til viðbótar af áframhaldandi lygum okkar sem eldri erum?