40 (3960 eftir)

Eitt prósent tímans er að baki, ríflega 40 dagar af þeim 4000 sem Valgerður Birna sagði mér í byrjun maí að við hefðum til umráða til að forða lífríkinu á jörðinni frá brotlendingu. Tíminn flýgur áfram og þó svo að ég hafi lesið æðimargar greinar um það hve alvarlegt ástandið er (nú síðast frétt BBC um rannsóknir fjölþjóðlegs hóps vísindamanna, þar á meðal Íslendinga, á „andateppu“ Atlantshafsins) þá hef ég líka séð ýmis tákn þess að þjóðþing og ríkisstjórnir einstakra landa séu að taka fastar á þessum málum. Nýjasta fréttin af þessu tagi er alíslensk.

Mánaðargömul greinaskrif ungra vísindamanna um hið svonefnda CarbFix-verkefni, sem gengur út að dæla kolefni niður í jarðlögin, virðast hafa náð eyrum ráðamanna. Ég þekki eina vísindakonuna í hópnum, Söndru Ósk Snæbjörnsdóttur, en hún skrifaði á facebooksíðu sína fyrir um sólarhring síðan:

„Óraunverulegt móment dagsins – í ráðherrabústaðnum að fylgjast með forsætis-, umhverfis-, iðnaðar- og menntamálaráðherrum, forstjóra OR og forstjórum og fulltrúum álveranna og kísilversins undirrita viljayfirlýsingu um að kanna til hlítar hvort hægt verði að nota CarbFix aðferðina til að draga úr losun stóriðju á Íslandi. Ég held ég hafi verið með gæsahúð um það bil allan tímann.“

Vissulega er þetta bara viljayfirlýsing (aðferðin er enn afar dýr í framkvæmd) en fundurinn í ráðherrabústaðnum ber með sér að stjórnvöld hér á landi geti brugðist við af alvöru í umhverfismálum, að á Alþingi og í ríkisstjórn séu einstaklingar sem geri sér grein fyrir að tíminn er naumur og að það sé of seint að ætla sér að draga úr kolefnismengun stóriðju árið 2030 (eins og virðist hafa verið niðurstaðan fyrir einhverjum misserum). Vissulega er þetta bara viljayfirlýsing en hún er sannarlega spor í rétta átt.

Næstu 40 daga ætla ég að hvíla þessa umhverfisdagbók en ég tek þráðinn aftur upp eftir sumarfrí og mun þá að nýju skrifa eina færslu á virkum dögum í aðra 40 daga. Á þeim tíma verður Alþingi kallað saman að nýju. Ég spái því að frekari tíðinda verði að vænta úr þeirri átt, t.a.m. að endurskoðuð verði nýleg löggjöf þingsins um bann á burðarpokum í verslunum frá og með árinu 2021. Ég vona að íslenskir þingmenn telji í haust rétt og skylt að fara að dæmi kanadíska þingsins og samþykkja bann við öllu einnota plasti frá 2021. Og vonandi taka þeir fleiri spor í rétta átt. Leiðarvísir þeirra í þessum efnum er ályktun þingfundar ungmenna sem haldinn var á Alþingi á þjóðhátíðardaginn. Þar segir meðal annars:

„Bregðast verður við loftslagsbreytingum og mengun áður en það er orðið of seint meðal annars með því að endurheimta votlendi, fækka ökutækjum sem knúin eru með óendurnýjanlegum orkugjöfum, fjölga hleðslustöðum fyrir rafmagnsbíla, setja mengunarskatt á bensín og díselbíla og grípa til aðgerða vegna mengunar fiskeldis í sjó. Vinna verður að vistvænni og sjálfbærri matvælaframleiðslu, leita leiða til að minnka matarsóun og minnka kjötneyslu. Samræma verður og einfalda flokkun sorps en eins og staðan er núna er verið að vinna að þessum málum með ólíkum hætti eftir sveitarfélögum. Þar má sem dæmi nefna að ekki er alls staðar gert ráð fyrir flokkun á lífrænu sorpi. Ungmenni telja löngu tímabært að íslensk stjórnvöld taki til hendinni og verndi náttúruna fyrir frekari skaða.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s