Hvaða áhrif hefur það á landið okkar og framtíð barna okkar að jöklar landsins eru að bráðna? Ég vaknaði upp með þessa spurningu í huganum í morgun og hef verið að velta henni fyrir mér síðan. Ýmis svör liggja á lausu.
Á Vísindavef Háskólans má finna 17 ára gamala færslu þar sem fram kemur hvaða jarðfræðilegu áhrif algjör bráðnun Vatnajökuls hefði í för með sér (landris og líklega aukin eldvirkni). Þar er eðlilega ekkert rætt um hvaða áhrif hún hefði á Kárahnjúkavirkjun (hún var tekin í notkun fyrir 12 árum).
Á vef Stjórnarráðsins má finna 11 ára gamla skýrslu um möguleg áhrif loftlagsbreytinga á Íslandi. Þar er rætt stuttlega um hvaða áhrif þær hefðu á raforkukerfið og sagt meðal annars:
„Á liðnum árum hefur afrennsli frá jöklum verið langt umfram það sem áður var148,149. Einnig hefur rennsli innan ársins líka tekið breytingum. … Þessar breytingar sjást um allt land og hafa leitt til þess að orkuvinnslugeta vatnsorkukerfisins er umtalsvert meiri en var raunin við hönnun kerfisins. Vegna þessa hefur verið að gera viðbótarsamninga um afhendingu orku án þess þó að auka líkurnar á því að til skorts komi.“ (s. 63)
Ekki er rætt beinum orðum um hvaða áhrif það hefði á íslenskt samfélag ef jökulárnar okkar þornuðu upp.
Á vef Stjórnarráðsins má einnig finna samantekt nokkru yngri skýrslu um áhrif loftlagsbreytinga á endurnýjanlega orkugjafa á Norðurlöndunum á 21. öldinni. Þar segir meðal annars í fremur bjartsýnum niðurstöðukafla:
„Norðurlöndin eru í fremstu röð við nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og búast
má við að hlutfall þeirra í heildar-orkuframleiðslu á svæðinu muni fara stöðugt vaxandi á næstu áratugum. … Viðbúnaður vegna líklegra áhrifa loftslagsbreytinga er
góður í öllum löndum á svæðinu og líklegt er að þær auðveldi aukningu á hlut vatnsorku, vindorku og lífrænnar orku á þessari öld.“ (s. 8)
Um líkt leyti birtust forvitnilegar fréttir þess efnis að Landvirkjun vildi stækka núverandi virkjanir til að geta nýtt betur hið aukna vatnsmagn sem jöklarnir eru að skila af sér vegna hækkandi meðalhita.
Og nú í vor birti RÚV líkar fréttir um að Landvirkjun væri strax farin að hagnast á bráðnun jöklanna (raforkuframleiðsla fyrirtækisins hefði aukist um 8% af þeim völdum). Sem fyrr var tónninn fremur jákvæður; Óli Grétar Blöndal Sveinsson, talsmaður Landsvirkjunnar sagði að rennslið í jökulánum myndi aukast næstu 30 ár en færi svo minnkandi næstu 170 ár þar á eftir; jöklarnir myndu ekki hverfa fyrr en eftir 200 ár. En á sama tíma mætti hins vegar búast við vaxandi rigningum sem myndu vega að einhverju marki upp á móti minnkandi rennsli frá jöklunum. Engu að síður yrði Landvirkjun að byggja smátt og smátt upp aðrar tegundir virkjanna, bætti Óli Grétar við, sem nýttu t.d. vindorku.
Ég hætti grúski mínu á vefnum, rólegri í sinni. Aðeins einn bakþanki truflaði mig örlítið. Spár manna um bráðnun jökla hér á Norðurhveli virðast hafa verið full bjartsýnar. Á síðustu vikum hefur til dæmis komið fram í ýmsum fjölmiðlum að bráðnun Grænlandsjökuls sé um það bil 50 árum á undan fyrri áætlunum.
Getum við virkilega treyst því að íslenskir jöklar eigi eftir að sjá raforkuvirkjunum fyrir vatni í 200 ár í viðbót? Þurfum við ekki að endurskoða okkar spár um líftíma íslensku jöklanna í ljósi veðurblíðunnar sem við höfum notið á þessu sumri?