Ungt fólk hefur áhyggjur af heilsufari jarðarinnar og það leitar allra leiða til að tryggja henni og sjálfri sér framtíð. Í fararbroddi fer sænska stúlkan Greta Thunberg en með henni í baráttunni eru þúsundir annarra barna og unglinga.
Mig langar til að kynna ykkur fyrir írska drengnun Fionn Ferreira, hann er átján ára gamall og vann á dögunum vísindakeppni sem Google-risinn stóð fyrir. Hann er að þróa áhugaverða aðferð til að safna saman plastögnum úr heimshöfunum, hún felst í því að hreinsa mengað vatn með segulmögnaðri blöndu (ferrovökva) sem dregur til sín plastagnirnar.
Fionn segir í nýlegu viðtali við vefinn EcoWatch að aðferð sín sé í sjálfu sér ágæt, visst spor í rétta átt, en um leið leggur hann áherslu á að eina rétta lausnin sé að hætta að nota plast.