Tvær vikur eru nú liðnar frá því að ég ákvað að leggja umhverfinu mitt litla lið. Árangurinn er ekki merkilegur. Ég hef tekið af sjálfum mér nokkur brothætt loforð og svo hef ég fengið nokkrar ágætar hugmyndir (og aðrar síðri). Byrjum á loforðunum:
a) Ég hóf 11 ára nautakjötsbindindi mánudaginn 6. maí. Það hafði ég haldið allvel, þar til í dag, og raunar aðeins örsjaldan látið kjöt inn fyrir mínar varir (eina pylsu, þrjá kjúklingarétti, pepperoni). Í hádeginu gleymdi ég mér hins vegar algjörlega. Án þess að leiða hugann að því fékk ég mér ungverskt gúllas sem var á boðstólum í vinnunni. Það var fyrst núna, undir kvöld, að það rann upp fyrir mér að gúllas er ekki bara kjöt heldur nautakjöt. Þetta er ekki gott afspurnar en segir kannski sína sögu um hvernig venjur okkar eru eins og djúp hjólför sem erfitt er að komast upp úr og afar auðvelt að hrökkva ofan í að nýju.
b) Ég ákvað að hætta að kaupa vatn á flöskum og hafa fremur meðferðis á ferðum mín kalt vatn á álflösku eða í öðrum margnota umbúðum. Ég hef staðið betur við þetta loforð og ekki aðeins alveg hætt að kaupa vatn í plastflöskum heldur einnig alla aðra drykki í slíkum umbúðum. Ég hef hins vegar enn ekki keypt álflöskuna góðu; þess í stað hef ég endnýtt gamla hálfslítra plastflösku sem var úti í glugga á skrifstofunni minni. Mér telst til að ég hafi fyllt hana um fimmtán sinnum á þessum hálfa mánuði. Almennt hefur vitund mín um plast aukist. Það blasir við hvert sem litið er. Það sem fer einna mest í taugarnar á mér þessa dagana er hve grænmetisbændur eru plastelskir. Líklega eru þeir að hugsa um ferskleikann frekar en framtíð lífs í sjónum þegar þeir klæða agúrkurnar sínar í aðsniðna plastgalla en er þetta algjörlega nauðsynlegt? (Ég lofa sjálfum mér hér og nú að senda fyrirspurn á Sölufélag garðyrkjumanna og spyrja út í þetta atriði).
c) Veigamesta ákvörðunin sem ég tók var að fækka verulega flugferðum mínum um heiminn. Næstu tólf mánuði hyggst ég ekki fljúga meira en 2×2 ferðir og stefna síðan að því að fækka þeim næstu árin þar á eftir í 1×2 ferðir, þ.e. heiman og heim. Til samanburðar get ég nefnt að síðustu tólf mánuði hef ég flogið fram og til baka a) frá Reykjavík til Tenerife b) frá Reykjavík til Barcelona c) frá Reykjavík til Chicago d) frá Reykjavík til Kaupmannahafnar, e) frá Reykjavík til Budapest og til baka fra Vín til Reykjavíkur. Þrjár af þessum fjórum ferðum voru vinnuferðir; ég flutti fyrirlestra á áfangastaðnum og hlýddi á aðra fræðimenn flytja fyrirlestra. Í tveimur af þessum þremur tilvikum var greitt undir mig af ráðstefnuhaldara, í einu greiddi ég úr eigin vasa.
Vinnuferðir mínar síðustu 12 mánaða losuðu, samkvæmt reiknivél sem kann að meta kolefnissfótspor, 1,46 tonn af CO 2, fríið mitt til Tenerife losaði til viðbótar 0,59 tonn og ferðin til Mið-Evrópu 0,43 tonn. Kolefnisfótspor mitt í flugi var sumsé hálft þriðja tonn. Samkvæmt reiknivél Kolviðar, sem Skógræktarfélag Íslands og Landvernd standa að, þarf að gróðursetja 25 tré til að vega upp á móti þeim neikvæðu umhverfisáhrifum sem þetta heimshornaflakk mitt leiddi af sér. Kolviður býðst til að sjá um þessa gróðursetningu þeirra fyrir 5.000 krónur. Það er verðmiðinn sem þetta verkefni setur á útþrá mína, hann er raunar lægri en ég átti von á. Og þá kemur að nýrri ákvörðun sem ég var að taka rétt í þessu:
d) Ég hyggst ekki aðeins kolefnisjafna allar mínar flugferðir næsta 3885 daga með aðstoð Kolviðar eða annarra aðila (Votlendissjóðurinn kemur einnig til greina) heldur setja upp sérstakan kolefnisjöfnunarsjóð fyrir fjölskylduna (maka, börn og barnabörn). Í hvert skipti sem eitthvert okkar fer í flugferð mun ég færa ferðina inn í kolefnisbókhald fjölskyldunnar og kolefnisjafna ferðir okkar 1-2 á ári.
Ég tek fyrsta skrefið nú þegar, legg Kolvið til fjármuni til að gróðursetja 50 tré. Gallinn er nefnilega sá að kolefnisjöfnunin sem hér um ræðir skilar sér inn í vistkerfið á afar löngum tíma. Samkvæmt vef Kolviðs tekur það umrædd 25 tré allt að 60 ár að binda þau tvö tonn af CO 2 sem flugferðirnar mínar sköpuðu síðustu 12 mánuði. Með 50 trjám er ég hugsanlega að stytta þann tíma eitthvað. Trén ættu að hafa lokið þessari tiltekt eftir síðasta ár um það leyti sem ég held upp á 85 ára afmælið (að því gefnu að við jörðin tórum svo lengi).