16 (3984 eftir)

Klukkan var ekki orðin 9 í morgun þegar starfsmaður Sölufélags garðyrkjubænda var búinn að svara fyrirspurn minni frá því í gærkvöldi um hvort plastpökkun á agúrkum væri algjörlega nauðsynleg, Í svarinu, sem var einstaklega alúðlegt, ítarlegt og vel stílað (kannski standard svar sent viðskiptavinum eins og mér?) sagði meðal annars:

„Helsta ástæða þess að grænmetinu er pakkað inn er sú að slíkt kemur í veg fyrir eða minnkar verulega ótímabærar skemmdir á vörunni. Slíkt minnkar matarsóun sem er alvarlegt vandamál á heimsvísu, eykur líftíma grænmetisins og viðheldur gæðunum mun lengur. Það er að sjálfsögðu mismunandi milli vörutegunda hvaða leið er hentugust. Sumum er alls ekki pakkað og grænmeti er aldrei pakkað að ástæðulausu.“

Þetta var rökstutt enn frekar síðar í bréfinu: „Áður en íslensku útiræktuðu grænmeti var pakkað, var ekki óalgengt að rýrnun í sölu væri allt að 25%, enda um viðkvæma vöru að ræða. Í íslensku grænmeti eru ekki notuð nein aukaefni til að auka geymsluþol eins og flestir erlendir framleiðendur gera og heldur ekki aukaefni sem tefja fyrir niðurbroti eða skemmdum. Við pökkun fer rýrnun á íslenska grænmetinu hins vegar niður fyrir 2%. Pökkunin kemur því í veg fyrir mikla sóun og minnkar umhverfiskostnað verulega.“

Þessar tvær tilvitnanir úr svarbréfinu leiða vel í ljós hinn þráláta Catch 22 vanda umhverfisumræðunnar: Ein lausn er talin skapa annan og jafnvel verri vanda en þann sem leysa á. Ef við tækjum okkur til á morgun eða hinn og bönnuðum (eins og rithöfundurinn sem ég snæddi með hádegiverð vill) ALLT plast í heiminum, þegar í stað, þá myndu vafalítið margar risaeðlur rísa upp á afturfætur og fullyrða að slíkt bann væri stórhættulegt lífinu á jörðinni, ávísun á aukinn koltvísýring í andrúmloftinu. Og þó var tíðin sú, fyrir einhverjum áratugum, að engin matvæli voru umvafin plasti á plasti ofan.

Í smásögu eftir Karen Blixen er líf og dauða líkt við tvö læsta kistla sem hvor um sig geymir lykilinn að hinum. Er hugsanlegt að getuleysi okkar til að takast af alvöru á við umhverfisvá samtímans stafi af tilhneigingu okkar til að sjá lykla að lausnum í svipaðri sjálfheldu? Erum við einfaldlega patt?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s